11. febrúar alþjóðadagur Ladies Circle

Þann 11 febrúar ár hvert fagna Ladies Circle klúbbar út um allan heim alþjóðadegi Ladies Circle. Á Íslandi var deginum fagnað á 5 stöðum á landinu; Reykjavík, Sauðárkrók, Akureyri, Egilsstöðum og Vestmannaeyjum. Hér á eftir er hægt að lesa um daginn á öllum þessum stöðum.

 

 

KLÚBBARNIR Á SUÐURLANDI – LC2, LC3, LC4, LC6, LC8, LC9 OG LC13

Á þessum frábæra degi okkar allra ákváðu suðurklúbbar að sameinast um dagskrá sem tókst mjög vel upp. Dagurinn byrjaði vel í Norræna húsinu þar sem flott sýning sem ber heitið Öld barnsins var skoðuð af áhuga og einbeitni. Kaffihúsið í Norræna húsinu fékk að njóta samvista hluta okkar föngulega hóps á meðan aðrar kældu bragðlaukana með Valdís.

Ferðinni var síðan heitið í Sjávarklasann sem er hús sprotafyrirtækja sem virkilega er gaman að heimsækja. Þar fengum við flotta kynningu á vörum frá Feel Iceland sem gera víst kraftaverk og spóla ótímabærri öldrun til baka með bæði húðvörum og vítamínum til inntöku. Bergson mathús stóð vaktina og gaf okkur að borða, grænmetissúpu, brauð, pestó og hummus. Þær sem þyrstari voru en aðrar vættu svo kverkarnar með hvítu og var barinn opinn að sjálfsögðu. Fyrirlestur Ragnheiðar Guðnadóttur “Streita í nútíma þjóðfélagi og leiðir til að vinna á henni”, var yfirskriftin á fræðslu dagsins og höfðu konur gott og gaman af.

Stuðboltar sem ávallt standa undir nafni, framlengdu svo daginn sem annars átti að standa frá 14-18, skelltu sér á Slippbarinn og tjúttuðu eitthvað frameftir eins og þeirra er von og vísa. Sunnankonur voru ánægðar með daginn og var mæting góð. Takk fyrir góðan dag og samveru kæru konur, það er alltaf jafn ánægjulegt að eyða stundum með ykkur og efla vinskapinn.

Með vinsemd og virðingu,
Rakel Hólm Sölvadóttir. LC-3. Reykjavík

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

LC 12 – Sauðárkrókur

17036847_699589970166068_259876217_oÞað var í hádeginu laugardaginn 11. Febrúar 2017 sem hópur föngulegra Skagfirskra (til ætta eða í hjarta) kvenna úr Ladies Circle 12 hittust heima hjá undirritaðri til matarneyslu, yndisauka og félagslegrar örvunar. Tilefnið var alþjóðadagur Ladies Circle International, og gleðin í hjarta okkar allra var ekta!

Upphaflega var planið allt annað! Í samfloti við systur okkar um gervallt norðurland ætluðum við að samstilla klukkur okkar og hitta alla klúbba (sem þær og gerðu) til gangs og til gamans. En þar sem við í tólfunni tókum það óumbeðið að okkur að slá öll barneignamet í Ladies Circle á landsvísu á síðasta ári* og vorum farnar að minna frekar á mjólkursamlag en virðulegan alþjóðlegan vináttuklúbb máttum við ekki langt frá dindildillandi ungum okkar fara. Til að sporna við arfaslakri mætingu sökum mjólkurframleiðslu tókum við Arney – háttvirtur formaður vor- þá ákvörðun að heima skildum við sitja fremur en halda yfir heiðina.

17036761_699589966832735_1359386479_oFrá upphafi hugsaði ég andrúmsloftið afslappað, skemmtilegt og veganestið það að komast, þó ekki væri nema í klukkutíma, frá geirvörtujaplandi og hádegismatsheimtandi afkomendum og eiginmanni með það uppáskrifað að svunta væri þemað og jafnvel yrði slegið í laufléttar og skemmtilegar þrjár mínútur (sem reyndar aldrei gafst tími til).

Þegar fyrstu konur mættu, þá hafði ég einhvernveginn náð að sulla saman í dýrindis súpu og af mér geislaði yfirvegun gestgjafans skrýdd svuntu úr íslenska búningnum, þó undir niðri kraumaði sambland af geðshræringu yfir að hafa náð að skófla skúffuðum fjölskyldumeðlimum út af heimilinu með þeim skilaboðum að láta ekki sjá sig fyrr en leyfi fengist til þess og klára allt 0,2 sekúndum áður en fyrstu konur mættu, og endurtekinni bón til frelsara vor um að það fyndist ekki á bragðinu að súpan hafi brunnið aðeins við kvöldið áður (sem á það til að gerast þegar heitmaðurinn er fenginn til að vaka yfir hellunni á meðan frúin bregður sér í búð að kaupa rjóma….

17036831_699589963499402_1506008361_o

Mimosa – Brönsdrykkur hinna snobbuðu í New York, ég gerði ráð fyrir að þau kynnu sitt fag  – fengu stelpurnar mínar þegar þær hver á fætur annari duttu inn svuntuklæddar og dásamlega brosandi. Við byrjuðum á að ræða aðeins daginn, veginn og afgreiða heitustu umræðuefni fjarðarins, en settumst svo að snæðingi. Gagnvart súpunni var ég annaðhvort bænheyrð, eða klúbbsystur mínar svona yfirnáttúrulega kurteisar, því ekki eitt einasta komment gaf til kynna að 17091343_699589973499401_788036279_osúpan hefði brunnið! Löngu eftir að súpudiskarnir tæmdust sátum við enn að njóta félagsskapar hvor annarar… Klúr einkahúmor, skemmtilegar sögur úr lífi hvor annarar og einfaldlega bara hrein og klár samkennd einkenndi þennan hádegisverð heima hjá mér á alþjóðadag Ladies Circle þann 11. Febrúar 2017!

Hrafnhildur varaformaður

*Órökstuddar og órannsakaðar heimildir

Image may contain: 9 people, people smiling, people sitting, table and indoor

LC11 – VESTMANNAEYJAR

Við í LC 11 í Eyjum höfðum því miður ekki tækifæri til að hitta aðra klúbba og gleðjast með þeim 11.febrúar, en það þýðir þó ekki að við höfum ekki skemmt okkur! Við skelltum á spilakvöldi og þar sem við urðum nýlega húsnæðislausar var Kristín Sjöfn svo yndisleg að bjóða okkur heim. Eina vandamálið við heimboðið var ný tilkomið stólaleysi á heimilinu, svo nokkrar tóku að sér að stóla stofuna upp! Flestar komu svo með einhver spil í farteskinu.

Klúbburinn bauð upp á léttar veitingar og hver og ein kom með sína drykki. Kvöldið einkenndist af hlátri og skemmtilegheitum, ýmis spil spiluð sem reyndu á hina ýmsu hæfileika. Sumir töldu Penélope Cruz hafa unnið Grímuverðlaun... aðrir fræddu nærstadda um hvað hvirfilpunktur væri... Heilt yfir yndislegt kvöld.

Á fundi 14.febrúar kórónuðum við svo hátíðarhöldin með því að vígja inn fimm nýjar konur, og fleiri á leiðinni!

LC10 OG LC14 – AUSTURLAND

Í ár bar 11. febrúar upp á laugardegi og á laugardögum gera fjölskyldur gjarnan eitthvað skemmtilegt saman. Því þótti okkur í LC10 og LC14 tilvalið að hittast með alla fjölskylduna.  

Dagurinn byrjaði á því að hópurinn hittist í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði þar sem settar voru upp hinar ýmsu þrautir. Þar gátu foreldrar leikið sér með börnunum sínum eða kjaftað við næsta mann. Síðan fór allur hópurinn saman í leikinn krókódíll krókódíll. Afbragðsskemmtun þar sem allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi.  

Eftir sprikl og fjör í íþróttahúsinu þurfti að hlaða orkubirgðarnar. Hópurinn hélt því á afar glæsilegt pizzahlaðborð hjá Café Sumarlínu. Þar fengu allir pizzur, franskar og gos eins og þeir gátu í sig látið.

Eftir frábærar pizzur lá leið okkar í sundlaug Fáskrúðsfjarðar sem við höfðum útaf fyrir okkur. Sundlaugin er innandyra og er hlý og góð. Því gátu meira að segja allra minnstu krílin notið þess að busla með. Sannkölluð fjölskylduskemmtun!

Þetta var afar skemmtilegur dagur sem við áttum saman og ljóst að bæði börn og fullorðnir nutu sín.  

Sigrún Yrja Klörudóttir

Varaformaður LC10

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

KLÚBBARNIR Á NORÐURLANDI – LC1, LC7 OG LC15

LC konur bregða á leik var yfirskrift fundarins sem LC-1, LC-5, LC-7 og LC-15 stóðu að í tilefni af Alþjóðardegi Ladies Circle. Þegar varaformenn klúbbanna hittust í janúar var sammælst um að við ætluðum að hafa gaman saman og kynnast þvert á klúbba. Dagskráin hófst klukkan 16 þar sem LC-systur mættu galvaskar í líkamsræktarstöðina Bjarg á Akureyri. Þar tók snillingurinn Eva Reykjalín á móti okkur, skipti okkur í lið og hélt utan um heldur óhefðbundna íþróttakeppni. LC konum gafst nú færi á að dansa tryllta dansa, rifja upp “húlla takta” úr æsku, borða Oreo kex með nýstárlegri aðferð, gretta sig og geifla með teygju svo eitthvað sé nefnt. Eftir all svakalega keppni skelltu þær sem vildu sér í heita pottinn og ræddu saman um heima og geima.  

Eftir glens og grín á Bjargi var ferðinni heitið í Zonta salinn á Akureyri þar sem konur gæddu sér á heimalagaðri gúllassúpu með brauði og súkkulaðiköku. Að sjálfsögðu var farinn góður kynningarhringur og þrjár mínútur þar sem konur rifjuðu upp eftiminnilegasta fundinn sinn eða atvik innan LC. Hláturinn ómaði og skemmtilegar sögur voru sagðir þegar minningarnar voru endurvaktar. Pub quiz að hætti Húsavíkurkvenna fór fram um mitt kvöldið þar sem konur gerðu sitt besta í að giska á svörin og um leið efast um eigið gáfnafar. Það var mikið skálað og keyrsluhæfir einstaklingar voru nýttir til að sækja áfyllingu víða um bæinn. Markmið dagsins var að gleðjast saman og kynnast og tel ég það hafa heppnast vel.  

María Aldís Sverrisdóttir, varaformaður Ladies Circle 7  

Comments are closed.