Circler world

Á alheimsþinginu í Haugesund, í ágúst síðastliðnum kynnti alheimsstjórn LC fyrir fulltrúum landanna samfélagsmiðil sem ákveðið var að fjárfesta í og taka í notkun innan samtakanna. Þetta er stórt og mikið verkefni sem er stýrt af þremur LC konum, Marieke frá Hollandi, Joyce frá Belgíu og undirritaðri frá Íslandi. Samfélagsmiðillinn heitir Circler.World og í fáum orðum er hann nokkurs konar Facebook fyrir LC heiminn.

Löndin ákveða sjálf hvort að þau vilji vera aðili að miðlinum en einnig geta konur sjálfar keypt sér aðgang (5 evrur pr. ár) ef landið ætlar ekki að vera með. En hvað gerir Circler.World? Miðillinn er að mestu leyti hugsaður til að auðvelda samskipti innan samtakann og gera konur sýnilegri og að auki nýtist hann landstjórnum landa við að halda utan um bókhald, nákvæman fjölda kvenna, fundarboð og skráningar á viðburði svo eitthvað sé nefnt. Ef Ísland ákveður að taka þátt og vera eitt af fyrstu löndunum inn, þá fær hver kona sinn eigin aðgang/heimasvæði þar sem hún getur sett inn upplýsingar um sig. Það eru fastar upplýsingar sem þurfa að koma fram og fara þær þá beint inn í félagatal LC Ísland og uppfærast sjálfkrafa þegar að kona breytir sínum upplýsingum.

Allt er unnið samkvæmt ströngustu reglum persónuverndar og geta konur valið hvað sést á þeirra heimasvæði. Á heimasvæðinu birtast síðan upplýsingar frá hennar eigin klúbbi, frá landsstjórn og alheimsstjórn. Öll fundarboð koma í dagatal auk annarra upplýsinga og skjala. Einnig poppa upp viðburðir um allan heim og því auðvelt og aðgengilegt að skoða og skrá sig á viðburði erlendis.

Í dag erum við að vinna gögn úr könnun sem við sendum til allra landa og er samfélagsmiðillinn byggður upp eftir þeim svörum sem komu úr henni. Fyrsta landið til að fá aðgang verður LC Belgía og erum við að vonast til að það gerist á næstu vikum og svo koma inn nokkur lönd til viðbótar til að prufa áður en hægt að opna hann alveg. Það eru því virkilega spennandi tímar framundan og óhætt að segja að samfélagsmiðill sem þessi getur opnað margar dyr fyrir félagskonur Ladies Circle.

Hildur Halldórsdóttir LC7