Framboð til varalandsforseta 2017 – Lilja Guðrún Jóhannesdóttir

Lilja Guðrún MyndSælar, kæru LC systur.

Ég heiti Lilja Guðrún, er 42 ára, og er í LC8. Ég bý í Vesturbæ Reykjavíkur með Jóhannesi Guðmundssyni, húsasmið, og saman eigum við þrjú börn sem heita Lára Björt 17 ára, Margrét Líf 13 ára og Bergur Karl 9 ára. Ég hef nýhafið störf við bókhald á Rekstrarsviði hjá Íslenskum Aðalverktökum.

Áhugamál mín eru mörg. Helst eru það fjölskyldusamvera, vinir, útivist, ferðalög, skíði, jeppaferðir, söngur, tónlist og bara fólk almennt. Ég hef ávallt verið virk í félagsstörfum sem og í skóla- og íþróttastarfi barna minna. Ég var í stjórn Fimleikadeildar Gróttu 2008-2013, formaður í klúbbnum mínum 2009-10 og vefstjóri landsstjórnar LC árin 2013-2015.

Ladies Circle verður þó að teljast til minna helstu áhugamála. Hef ég kynnst mörgum góðum konum innan LC bæði hérlendis og erlendis. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi þegar ég sat í stjórn LC árið 2014 að fá að fara í stað Esterar, þáverandi landsforseta, á AGM til Vilnius í Litháen. Í ágúst 2015 sótti ég auðvitað AGM á Akureyri og fékk það skemmtilega hlutverk að vera gæsamamma í heimapartýi hjá Steinu. Í janúar í fyrra fór ég í eftirminnilega ferð með Salóme, þar sem við tókum þátt í Ladies Cycling to Leuven og hjóluðum ásamt Ragnheiði og Hildi frá Bergen í Hollandi til Leuven í Belgíu á MTM. Ég hlakka til að fara til  Sønderborg í ágúst.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til varalandsforseta núna í ár. Ég á einungis 3 ár eftir í þessum yndislegu samtökum sem hafa gefið mér svo mikið og nú er kominn tími til að ég gefi af mér tilbaka. Ég hlakka til að takast á við spennandi og skemmtileg verkefni landsstjórnar, hljóti ég þann heiður sem fyrsta kona LC8 í þessu embætti. Sjáumst hressar í vor!

Með kærri kveðju,

Lilja Guðrún Jóhannesdóttir, LC8.

Comments are closed.