Framboð til varalandsforseta

Kæru LC systur.

Ég heiti Hildur Ýr Kristinsdóttir, er 38 ára gömul og hef verið félagi í LC-7, Akureyri, síðan árið 2006. Ég er gift Helga Rúnari Bragasyni og saman eigum við hana Karen Lind 11 ára. Ég er þjónustustjóri hjá VÍS á Akureyri en þar hef ég unnið síðasliðin 9 ár.

Hildur Yr K.

Frá því að ég var vígð inní LC hef ég starfað af heilum hug fyrir samtökin. Ég var formaður LC-7 2009-2010 og gjaldkeri Landsstjórnar 2012-2014. Nú er ég í því skemmtilega hlutverki að vera í rástefnunefndinni fyrir AGM 2015 á Akureyri.

Að vera í þessum félagsskap hefur gefið mér alveg ótrúlega mikið og hef ég oft á tíðum þurft að fara vel út fyrir þægindahringinn en það er einmitt það sem gerir þetta líka svo skemmtilegt. Því að takast á við áskoranir er eitthvað sem við höfum allar svo gott af.

LC og Round Table er stór hluti af lífi okkar hjóna og sameiginlegt áhugamál okkar. Helgi hefur verið mjög virkur félagi í RT síðan hann byrjaði árið 2006. Ég er stolt að segja frá því að hann er að taka við sem Forseti Round Table á Íslandi nú í maí. Við erum bæði sammála um það að nýta þennan tíma sem við eigum í þessum félagsskap til hins ítrasta og höfum verið dugleg að sameina hann aðal áhugamáli okkar fjölskyldunnar sem er að ferðast. Við höfum sótt flest alla viðburði á vegum landsstjórnanna hér innanlands undanfarin ár. Einnig höfum við sótt viðburði erlendis bæði saman og í sitthvoru lagi. Til gamans má nefna að í nóvember síðastliðnum fórum við öll 3 saman til New York á NTM fund Round Table. Þessi helgi tókst í alla staði ævintýralega vel og gaman að leyfa dótturinni að taka þátt og upplifa með okkur hvað þetta er skemmtilegur og gefandi félagsskapur. Ef tækifæri gefst eigum við klárlega eftir að taka hana með okkur á einhvern annan viðburð í framtíðinni.

Það eru spennandi og jafnframt krefjandi tímar framundan hjá samtökunum. Að skipuleggja viðburð eins og AGM, í ágúst, krefst mikillar óeigingirni, samvinnu og vináttu. Þetta er stórt og viðamikið verkefni sem ég er vikilega stolt að vera hluti af.

Það væri mér sannur heiður að fá að taka að mér embætti Varalandsforseta Ladies Circle á Íslandi 2015-16.

Með vináttu- og kærleikskveðju til ykkar,

Hildur Ýr Kristinsdóttir

Comments are closed.