Framboð til vefstjóra.

 

Sælar verið þið LC systur til sjávar og sveita.

Unnur María heiti ég og gef kost á mér í embætti vefstjóra landssambandsins. Ég var vígð inn í LC2 haustið 2013 og starfa nú í árshátíðarnefnd klúbbsins. Að öðru leyti hef ég ekki gegnt ábyrgðarstöðum fyrir samtökin en nýt þess að fylgjast með, kynnast frábærum konum og læra.

Unnur

Ég fylli 42 árin nú í mars, er alin upp á landsbyggðinni en verið búsett í höfuðborginni frá 18 ára aldri. Ég bý í Breiðholti ásamt keisurunum mínum þremur, kjölturakka, dísarpáfagauki og sambýlismanni. Þar starfa ég sem grunnskólakennari auk þess að vera með litla útgáfu er tengist námsefnisgerð og skipulagsgögnum fyrir starfsmenn í leik- og grunnskólum. Samhliða starfi mínu sinni ég einstaka viðburðastjórnun, en ég lauk því námi frá Hólum í Hjaltadal fyrir nokkrum árum. Ég er í ritstjórn ÖBÍ, sit í upplýsingateymi vinnustaðar míns og hef einnig annast ritstjórn grunnskólablaðs. Eiginlegri vefstjórn hef ég ekki sinnt áður en finnst mjög spennandi að kynnast þeirri hlið miðlunarinnar.

Sem stendur er ég í 2 ára námi í Margmiðlunarhönnun við Borgarholtsskóla og útskrifast nú í maí. Þar hef ég öðlast töluverða reynslu og þekkingu á margskonar miðlun, grafískri uppsetningu, ljósmyndun og stuttmyndagerð. Sem lokaverkefni er ég að vinna að heimasíðu og er því ágætlega kunnug Dreamweaver og WordPress viðmótinu sem heimasíða LC er unnin í auk þess að hafa haldgóða þekkingu á ýmsum uppsetningar- og hönnunarforritum á borð við Illustrator, InDesign og Photoshop.

Ég sé fyrir mér marga möguleika við að efla þá þætti Ladies Circle er lúta að grafískri miðlun og framsetningu, hvort heldur sem þeir snúa að ljósmyndun eða kviku efni, útlitslegri samræmingu, glæruhönnun eða öðrum sjónrænum þáttum. Ég hlakka til að hitta ykkur og kynna þær hugmyndir nánar á fulltrúaráðsfundinum í maí.

Með vinsemd og virðingu

Unnur María Sólmundsdóttir

 

~~~~~

 

Sælar kæru LC systur!

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti vefstýru samtakanna.

hh_frambod

Ég heiti Hildur Halldórsdóttir, er 36 ára og er búin að starfa í LC7 síðan 2008. Ég er menntuð lífeindafræðingur, gift og á tvær dætur, 3ja og 7 ára. Frá upphafi hef ég verið virk í öllu því starfi sem LC hefur upp á að bjóða. Ég var formaður sjöunnar 2012/13. Ég hef mætt á alla fulltrúaráðs- og landsfundi síðan 2010. Að auki hef ég farið tvisvar erlendis á AGM og tvisvar á MTM. Þá hef ég unnið að uppsetningu alheimsþingsins hérna á Íslandi sem ráðstefnustjóri. Það eru forréttindi að fá að starfa fyrir samtök eins og Ladies Circle og hef ég þroskast og lært heilmikið síðastliðin ár. Nú þegar að sér fyrir endann á ráðstefnuvinnunni langar mig að halda áfram að starfa fyrir samtökin, samtök sem hafa gefið mér svo mikið. Samtök sem sífellt eru að hvetja mig til að stíga út fyrir þægindaramman og takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni.

Ég hef mikla reynslu af að vinna í wordpress umhverfi, sama vefumhverfi og heimasíða samtakana er sett upp í. Ég hef grunn í HMTL og CSS kóðun. Einnig hef ég mikla reynslu af markaðsstarfi á facebook og viðhaldi “like” síðna.

Heimasíðan okkar er fín og flott uppsett en ég sé mikla möguleika á að bæta hana. Ég vil sjá hana gagnvirkari og líflegri. Með litlum og skemmtilegum viðbótum ætti að vera hægt að virkja hana meira. Ég vil sjá síðuna þannig uppsetta að félagsmenn kíki inn á hana til að afla sér upplýsinga og fróðleiks, ég vil sjá hana einfalda en um leið líflega, gagnvirka og skemmtilega.

Ég mun gefa mig algjörlega að þessu verkefni innan LC næstu tvö árin nái ég kosningu.

Hildur Halldórsdóttir LC7

Comments are closed.