Höldum fulltrúaráðsfund – fréttabréf haust 2018

Höldum fulltrúaráðsfund!!!

Já þessi setning ómaði um Fjarðabyggð vorið 2017, hjá Ladies circle konum og Round table mönnum á Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.  Það var spjallað, skrafað og skipulagt.  Umsókn var undirbúin og tekin voru upp kynningarmyndbönd eftir að samstaða náðist um þema, sjóaraþema.  Spennan magnaðist um miðjan október 2017 þegar tilkynnt var hverjir myndu hreppa hnossið.  Jú það var Fjarðabyggð, sameiginlegur fulltrúaráðsfundur í október 2018 yrði hjá okkur í Fjarðabyggð.  Þá þegar hófst undirbúningsvinnan, vinna sem stóð í heilt ár. Erfitt, spennuþrungið og óendanlega skemmtilegt ár.  Eftir miklar spekúlasjónir og pælingar um það hvar halda skyldi herlegheitin var ákveðið að Eskifjörður yrði partýpleisið 12.-14. október 2018.

Strákarnir í RT 16 höfðu haldið tvo fulltrúaráðsfundi áður en aldrei sameiginlegan fund með LC (enda erum við í LC 14 tiltölulega nýr klúbbur).  Reynsla þeirra var ómetanleg í öllum þeim undirbúningi sem við tók. Það var fundað, spjallað, skrifast á og hringt.  Við skipuðum allmarga ráðuneytisstjóra sem skipuðu almúganum í verkefni hægri-vinstri.  Þegar leið að hausti var allt komið á fulla siglingu og spennan magnaðist hratt.  Við í LC-14 misstum því miður nokkrar góðar konur úr okkar hópi í byrjun hausts og verður það að viðurkennast að á þeim tíma féllust mér nánast hendur, hvernig ættum við að geta þetta svona fáliðaðar.  En kraftaverkin gerast og hópurinn þjappaðist bara saman auk þess sem það bættust í hópinn nokkrar magnaðar nýjar konur sem komu svo kröftugar inn í alla skipulagningu og vinnu að það er ólýsanlegt.

Helgin rann svo upp, heiðskýr og björt, allt var að smella saman. Ekki var gert ráð fyrir svefni að neinu ráði og allir orðnir vel stemmdir í eina mögnuðustu helgi sem um getur þar sem allir unnu saman sem ein stór vel smurð vél.  Samstaðan, gleðin, hamingjan og krafturinn sem er í þessum fríða hópi LC kvenna og RT manna á Íslandi er ólýsanleg.  Margar LC-14 konur höfðu aldrei farið á fulltrúaráðsfund en ég sá þessa helgi hvað kviknaði á LC ljósi þeirra allra, þær skildu nú hversvegna við hinar komum alltaf ljómandi og orkumiklar af fulltrúaráðs- og landsfundahelgum.  Þessi helgi hristi ekki bara saman LC-14 og RT-16 vo um munar heldur styrkti líka hóp okkar LC-14 kvenna og ég efa ekki að við munum fjölmenna á næstu fundi.

Var þetta mikil vinna – já.  Var þetta erfitt – já.  Var ég við það að bugast á tímabili – já (kannski aðallega því ég á það til að vera skipulags og fullkomnunar frík). En var þetta þess virði – JÁ. Myndi ég gera þetta aftur – JÁ.  Ég ætla svo sannarlega að vona að við í LC-14 höldum aftur fulltrúaráðsfund – fljótlega – s.s. áður en ég fer í það verkefni að stofna Agora klúbb í Fjarðabyggð.

Að lokum verður að nefna það að þessa helgi söfnuðum við 560 þúsund krónum í góðgerðaverkefnið okkar með sektum, áskorunum og uppboði.  Þennan góðgerðarsjóð er búið að afhenda fjölskyldu tæplega 3 ára stúlku sem er með sjálfsofnæmissjúkdóm og er í beinmergsskiptum í Englandi og þarf að vera þar í amk 3 mánuði.  Enginn efi er á því að þeir peningar munu koma sér mjög vel.

Takk fyrir komuna á Eskifjörð stelpur og takk fyrir aðstoðina í góðgerðasöfnuninni okkar.  Vinátta, hjálpsemi, gleði og töfrar eru þau orð sem lýsa þessari helgi í mínum huga. Ég get ekki beðið eftir því að hitta ykkur allar á Egilstöðum í maí.

Bestu kveðjur yfir vötn og fjöll
Eik, varaformaður í LC-14