Kveðja frá landsforseta – fréttabréf haust 2018

Kæru LC systur

Í vor hófust nýjir tímar. Vorið færir okkur líka oft ferskan andblæ og maður er svo til í allt það sem lífið hefur uppá að bjóða. Sólin farin að hækka á lofti og maður er fullur af orku og bjartsýni. Tækifærin bíða handan við hornið og í mínu tilviki tækifæri til að kynnast nýjum konum þar sem ný landstjórn hóf störf sín með fjórum nýjum konum innanborðs. Meðan klúbbarnir hvíla störf sín yfir sumarið höfðum við í landstjórninni í nógu að snúast í upphafi sumars. Það þarf að setja upp nýtt félagatal, uppfæra upplýsingar á heimasíðunni okkar, skila af okkur skýrslu um störf LC á Íslandi til alheimsstjórnar, undirbúa okkur fyrir AGM fundinn erlendis ásamt öðru dúlleríi hér og þar. Við fórum þó líka í smá sumarfrí eins og gengur og gerist allstaðar.

Svo kom haustið!

Í byrjun september skrifaði ég lítinn pistil til ykkar á heimasíðuna okkar þar sem ég kom meðal annars inn á það hve dásamlegur tími haustið er, meðal annars vegna þess að þá hefst nýr starfsvetur í klúbbunum okkar, rútínan festist í sessi og ég fæ aftur að njóta samvista með LC systrum mínum. Haustið hefur að mínu mati farið afar vel af stað. Margir klúbbar hafa nýtt það til þess að bjóða nýjar konur velkomnar ásamt því að hrista saman hópana sína til að gera þá enn betri.

Haustið fór að miklu leyti í að skipuleggja fulltrúaráðsfundinn okkar sem haldinn var á Eskifirði um miðjan október. Landstjórn hittist á vinnuhelgi þar sem setið var við vinnu og skipulag frá morgni til kvölds. Við gáfum okkur þó smá tíma til að skála og kynnast þar sem þetta var í fyrsta skiptið sem landstjórn hittist augliti til auglitis eftir að ný landstjórn hóf störf í byrjun maí.

Fulltrúaráðsfundarhelgin okkar kom og fór alltof fljótt. Rúmlega fimmtíu LC konur komu saman og funduðu og áttu virkilega góðan tíma saman. Fundurinn var vel nýttur til umræðna og er eitt af markmiðum vetrarins hjá okkur að koma umræðupunktunum frá fundinum og niðurstöðum þeirra á aðgengilegt form á netinu svo við getum allar nýtt okkur þær hugmyndir sem spruttu upp eins og gorkúlur. Ljóst er að innan LC eru afar frjóar og hugmyndaríkar konur og það ber okkur að nýta. Því miður gat Salome Ýr fráfarandi landsforseti ekki verið með okkur á vinnuhelginni okkar né á fulltrúaráðsfundinum en hún var þó bara einu símtali frá og tilbúin að vera okkur innan handar ef þyrfti.

Við höfum einnig sett okkur það markmið í vetur að gera aðeins betur hvað varðar að kynna samtökin útá við, efla vitund annarra um okkur og skapa jákvæða og áhugaverða ímynd. Það er mikilvægt að við leggjumst allar á eitt því eins og ég hef oft áður sagt að saman erum við svo miklu öflugri.

Starfsveturinn okkar fer að verða hálfnaður og áður en við vitum af verður komið vor og þessu starfsári lokið. Líkt og oft þá leggur maður af stað í ný verkefni fullur spennu, áhuga og jafnvel með markmið um að hrinda allskonar hugmyndum af stað. Það kemur líka sá tími að maður áttar sig á því að það er takmarkað hverju maður getur komið í verk á tæpu ári og þá þarf að forgangsraða og upphugsa hlutina uppá nýtt. Hins vegar má heldur ekki gleyma því að eftir þennan vetur kemur annar vetur og svo annar og annar. Góðir hlutir gerast hægt.

Í vetur hef ég einsett mér það að reyna að heimsækja sem flesta klúbba og langar mig að hvetja ykkur allar til þess sama. Það er virkilega gaman að kynnast nýjum konum og eyða með þeim einni kvöldstund. Læra eitthvað nýtt, víkka sjóndeildarhringinn svo ekki sé nú talað um að stíga reglulega út fyrir þægindarammann. Eitt af því sem LC gerir reglulega fyrir mig er einmitt þetta, efla mig í því að stíga skrefið – skrefið út fyrir þægindarammann minn.

Takk stelpur fyrir þann tíma sem nú er liðinn, ég hlakka til að klára næstu mánuði með ykkur.

Með vinsemd og virðingu
Eva Björg Skúladóttir
Landsforseti LCÍ 2018-2019