Kveðja frá landsforseta

September er genginn í garð með tilheyrandi myrkri og rútínu að loknu sumarfrii.

Fyrir flesta er sumarið yndislegur tími sem maður oftar en ekki nýtir til samveru með fjölskyldu og vinum. Þrátt fyrir gott sumar og dásamlega samveru með fjölskyldunni tek ég iðulega fagnandi á móti haustinu. Í mínum huga kemur september inn með rútínu sem oft ber að fagna. Skólinn byrjar aftur og ákveðin festa tekur sér stað í lífi manns að nýju. Ég kveiki á kertum og nýt rökkursins en í september hitti ég líka loksins aftur, eftir sumarfrí, klúbbkonur mínar úr Ladies Circle.

Mér finnst ég afar lánsöm að fá að tilheyra Ladies Circle og fá tækifæri til að kynnast og njóta samvista með ólíkum konum. Konum sem kenna mér ýmislegt nýtt, auka á þolinmæði mína og víðsýni, kenna mér á tillitsemi og umburðarlyndi auk þess að taka mér eins og ég er.

Að hausti fyllist ég líka ákveðinni tilhlökkun, tilhlökkun yfir öllum nýju konunum sem eiga eftir að bætast í hópinn okkar á komandi vetri og ég verð svo heppin að fá að kynnast. Mér verður oft hugsað til fyrstu skrefanna minna í Ladies Circle og hversu mikið gæfuspor það var að fá tækifæri til að tilheyra samtökunum okkar. En því má ekki gleyma að það geta líka verið erfið spor fyrir einhverja að taka ákvörðun um að mæta á fund með konum sem maður þekkir lítið eða jafnvel ekkert. Að mæta á sinn fyrsta fund með öran hjartslátt og sveitta lófa og vita ekki almennilega hvað bíður manns. Það yndislega viðmót og hlýja sem við allar búum yfir hjálpar manni svo sannarlega til að taka á því stressi er við bjóðum fram vináttu okkar og hjálpsemi. Ladies Circle er fjölmennur félagskapur og í vetur eru rúmlega 250 konur sem tilheyra samtökunum. Ég hvet klúbbana til að fjölga þar sem við á. Verum dugleg að ræða um samtökin okkar, vekjum áhuga og athygli á þeim út í samfélagið og bjóðum nýjar konur velkomnar til okkar.

Ég óska ykkur góðs vetrar og að samstarfið verði gott okkar allra á milli. Ég hvet ykkur einnig til þess að kíkja á fundi hjá hinum klúbbunum bæði til að efla vináttuna sem og til að fá hugmyndir fyrir klúbbstarfið því hver klúbbur hefur sitt lagið á og er uppfullur af skemmtilegum fróðleik.

Ég legg af stað inn í vetrarstarfið með sól í hjarta þrátt fyrir rökkrið sem er að skella á úti.

Bestu kveðjur

Eva Björg Skúladóttir

Landsforseti LCÍ 2018-2019

Comments are closed.