Kveðjuræða landsforseta 2017

Sælar kæru LC systur.

Nú er ég að ljúka forsetaárinu mínu í Ladies Circle. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að starfa fyrir samtökin sem landsforseti og þakka ég innilega það traust sem mér hefur verið sýnt. Þetta er búið að vera lærdómsríkur og áhugaverður tími með kröftugum og áhugasömum konum. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf bæði í klúbbunum og í landstjórn.

Starfsárið hófst á Akureyri í byrjun maí þegar ný landstjórn tók við. Ester, Sólveig og Steinunn Línbjörg luku setu sinni í landstjórn og þrjár nýjar konur komu inn. Salóme var kosin varalandsforseti, Vala sem gjaldkeri og Steinunn sem ritari. Ný landstjórn hittist strax daginn eftir landsfund á stuttum fundi. Fyrstu verkefni nýrrar landstjórnar eru að skila inn gögnum og skýrslu til alheimsstjórnar í byrjun júní. Þá kemur Facebook til góðra nota en mikil vinna og samskipti landstjórnar fer fram í gegnum Facebook og er það orðið ómissandi vinnutæki fyrir okkur. Við höfum haldið fundi nær mánaðarlega allt starfsárið, bæði hist og í gegnum símafundi. Við hittumst tvisvar sinnum og vorum með vinnuhelgar. Í lok september í bústað á Bifröst og í lok mars í íbúð í Reykjavík. Þessar vinnuhelgar eru okkur mjög mikilvægar þarna komum við mjög miklu í verk og getum undirbúið okkur fyrir fulltrúaráðs – og landsfundi. Einnig gegna þær mjög mikilvægu hlutverki í tengslamyndun okkar á milli allar. Því betur sem við þekkjumst verður meira traust á milli okkar og þá verður auðveldara að vinna saman og ræða um hin ýmsu málefni sem koma inn á borð landstjórnar.

Í ágúst fóru ég, Hafdís, Hildur H. og Eva Björg ásamt eiginmönnum okkar til Cape Town í Suður-Afríku á alheimsráðstefnu Ladies Circle. Ég og Hafdís sem fulltrúar LCÍ og Hildur H. sem fulltrúi alheimsstjórnar. Í Cape Town voru samankomnar skemmtilegar konur og var virkilega gaman að hitta gamla vini og kynnast mörgun nýjum. Stemningin var virkilega skemmtileg og gleðin réð ríkjum. Strax eftir ráðstefnuna héldum við Hildur H. ásamt eiginmönnum okkar til Kathmandu í Nepal og tókum þá í alheimsráðstefnum Round Table International. Í janúar fór ég svo ásamt Salóme til Gautaborgar í Svíþjóð á MTM fund. Aldrei áður hafa jafn margar konur áður sótt MTM fund eins og í Gautaborg eða rúmlega 200. Mjög góður fundur og skipulagningin hjá systrum okkar í Sviþjóð alveg til fyrirmyndar.

Það eru alltaf næg verkefni á borðum landstjórnar og höfum við áorkað mörgu í vetur. Eftir umræður og undirbúning í nokkur ár var látið af því verða að gera nýjar landstjórnarkeðjur. Þær gömlu voru illa farnar og einhverjar ónýtar og var þetta því algert þarfaverk. Ég er mjög ánægð með hvernig til tókst og geta allar landstjórnarkonur borið nýju keðjurnar stoltar. Við létum einnig útbúa stand með merkinu okkar á sem verður mun auðveldara að ferðast með en fánann okkar þegar þannig ber undir. Við höfum vakið athygli á afmælisdögum klúbba á Facebook síðunni okkar með því að senda þeim kveðju í tilefni dagsins. Dagatal með fundum allra klúbba, í tímaröð, hefur verið aðgengilegt í skjali á lokuðu síðunni okkar á Facebook og síðar á heimasíðunni okkar til þess að gera það auðveldara fyrir konur að nálgast upplýsingar um fundi hjá öðrum klúbbum. Við prófuðum að stofna lagabreytingarnefnd sem vann að lagabreytingu sem rædd var á fulltrúaráðsfundinum á Húsavík. Þó svo að sú tillaga hafi ekki verið sett fram nú var þetta engu að síður áhugaverð tilraun. Heimasíðan okkar í er sífelldri þróun og er búin að fara mikil vinna í hana í vetur og lítur hún mjög vel út í dag.

Eitt af fjölmörgum verkefnum landstjórnar er að heimsækja klúbba. Ég held að það sé óhætt að segja að landstjórn hafi verið dugleg í heimsóknum í vetur. Ég náði að heimsækja 8 klúbba þetta starfsár og í öllum heimsóknum nema einni var ég í fylgd með annarri landstjórnarkonu. Fyrsta heimsóknin var strax í maí þegar ég og Hildur H. hittum hressar konur í LC9. LC1, LC5, LC12 og LC15 voru síðan heimsóttir fyrir áramót. Á nyju ári hef ég sótt fundi hjá LC3, LC14 og LC10 ásamt því að hitta formann og fráfarandi formann LC13 í hádegisspjalli. LC8 var heimsóttar af Völu sem fór líka á stofnfund LC16 ásamt Steinunni.

Alþjóðadeginum var fagnað að venju 11. febrúar sl. Í ár var deginum fagnað á fimm stöðum á landinu; Reykjavík, Sauðárkróki, Akureyri, Egilstöðum og í Vestmannaeyjum. Mjög fjölbreytileg dagskrá var og áttu konur góðar stundir saman.

Mikil fjölgun hefur átt sér stað hjá LCÍ síðastliðin 3 ár en í maí 2014 vorum við 188 en í dag erum við 250 sem gerir 25% fjölgun á þessum þremur árum. Frábær árangur hjá okkur. Það lítur út fyrir að við séum að fjölga okkur en frekar en nú er 16. klúbburinn í burðarliðnum og erum við í fyrsta skipti með fulltrúa frá þeim á fundi hjá okkur. Kæru konur í LC16 Hvolsvelli, velkomnar í hópinn og við hlökkum til að geta tekið ykkur formlega inn í samtökin, sem verður vonandi á komandi hausti.

Hvað varðar samstarf við önnur samtök þá fórum við Steinunn á aðalfund Agora sl. vor. Fundurinn var mjög áhugaverður og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni. Samstarf okkar við Round Table heldur áfram að vera gott. Við forsetarnir höfum átt nokkur samskipti í vetur þó engin formlegur fundur hafi verið hjá landstjórnunum. Á Húsavík buðum við landstjórn RTÍ í fordrykk og náðum að kynnast hvort öðru, skemmtileg stund sem jók á  tengslin milli okkar.

Ég kveð þetta ár með þakklæti, reynslunni ríkari og hlakka til að starfa með nýrri landstjórn næsta vetur. Takk fyrir mig.

Kærleikskveðja,

Hildur Ýr

Mandala og einkunnarorð

Comments are closed.