Kynning á frambjóðendum í embætti landsstjórnar – Varalandsforseti

Sælar kæru LC systur.

Hvað er það sem drífur mig áfram í starfa fyrir samtökin okkar á óeigingjarnan og metnaðarfullan hátt? Fyrir mér er Ladies Circle meira en kvennasamtök. Ladies Circle er kraftur sem gefur okkur konum aukið sjálfstraust, umburðarlyndi og aukinn kraft til að gera betur og styrkja okkur sem konur í nútíma þjóðfélagi. Kraftur sem gefur okkur styrk til að standa upp og elta drauma okkar. Ég hef verið starfandi í samtökunum í 10 ár. Alveg frá byrjun varð ég heilluð en ekki viss hvort að myndi henta mér. Ég tók ákvörðun um að halda áfram og sé ekki eftir því. Þessi tími hefur verið lærdómsríkur, jafnvel erfiður á köflum, en ástríðan og gleðin í öllu því starfi sem ég hef tekið þátt í hefur yfirhöndina og hefur styrkt mig í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur dagsdaglega.

Ég er metnaðarfull, jákvæð, víðsýn og vinnusöm. Ég er lausnamiðuð og fljót að tileinka mér nýja hluti og alls óhrædd við ný tækifæri og áskoranir. Ladies Circle Ísland er á áveðnum tímamótum að mínu mati, samtökin hafa stækkað hratt undanfarin ár og því fylgja vaxtaverkir. Lögin okkar þarf að taka til endurkoðunar og uppfæra í samræmi við stækkandi samtök og breytt þjóðfélag. Mig langar að sjá samtökin sýnilegri út á við og að LC konur verði fyrirmyndir hvað varðar mannrækt, góðgerðir og gildin okkar. Að ungar konur sjái samtökin sem áhugaverðan og spennandi kost. Þessi markmið verða ekki að veruleika með mér einni. Við allar, samheldinn hópur kvenna, með sömu ástríðu munum vinna að því í sameiningu að því að bæta samtökin. Tökum því fagnandi á móti LC framtíðinni og hjálpumst að við að gera Ladies Circle Ísland að enn betri samtökum.
Eltum drauma okkar, því draumar dagsins í dag verða veruleikinn á morgun!

Hildur Halldórsdóttir, LC7

Comments are closed.