Ladies Circle – án landamæra! Fréttabréf haust 2018

Sjóðandi LC stemning í Svíþjóð

Í fyrrasumar tók ég stóra ákvörðun. Á þeim tíma upplifði ég mig í einhverskonar kreppu – ég hafði staðnað í vinnu og þráði að breyta til og takast á við eitthvað nýtt og krefjandi verkefni. Síðla sumars fékk ég gullið tækifæri sem ég gat ekki hafnað. Á mínum reglulega facebook rúnti rakst ég á auglýsingu frá íslenskri konu búsettri í Svíþjóð. Unga konan, sem er nú bara örfáum árum eldri en ég, var að auglýsa eftir Au-Pair fyrir sig og þá rúmlega þriggja ára dóttur sína í Helsingborg. Ég man að ég þurfti að googla hvar umrædd borg væri staðsett til að átta mig betur, en fyrir þá sem ekki vita er HSB rúmlega hundrað þúsund manna hafnarborg við Eyrarsund á suður Skáni.

Ég man að ég las auglýsinguna og heillaðist strax að þeim mæðgum. Mig hafði persónulega lengi langað að búa einhvern tímann erlendis og hef svo oft dáðst að öllu fólkinu í kringum mig sem hefur tekið slíkt skref. Flutt erlendis ýmist til lengri eða styttri tíma til að ferðast, fara í nám og/eða til að vinna. En á sama tíma og ég dáðist að öðrum gerði ég ef til vill lítið úr sjálfri mér. Af einhverjum fáránlegum ástæðum hafði ég alltaf fundið afsakanir eða ástæður til að halda að svoleiðis ævintýri væri nú ekkert eitthvað fyrir mig.

Ég kann enga skýringu á því en, þetta kvöld, kom ég sjálfri mér virkilega á óvart – ég sótti um. Í kjölfarið átti sér stað ákveðið ferli sem endaði á því að mér var boðið tækifærið á að flytja út. Eftir mikinn þankagang, mörg og löng samtöl við mína nánustu ákvað ég að um einstakt tækifæri væri að ræða. Ég sagði upp vinnunni, kvaddi alla mína nánustu og örfáum vikum seinna var ferðinni heitið til Svíþjóðar með „one way ticket“ yfir Norður Atlandshafið. Sama kvöld eftir að hafa googlað staðsetninguna og velt þessu tækifæri fyrir mér var bara eitt í stöðunni. LC-loverinn sem ég er, sló því „Ladies Circle Helsingborg“ næst í leitarvélina. Ég get með sanni sagt að það hafi kveikt áhuga minn enn frekar að flytja út þar sem í ljós kom að þrír LC klúbbar eru starfandi í borginni auk einun Akka klúbbi (svipar til LC en er þó að mér skilst ekki jafn háð staðsetningu).
Fljótlega eftir það leitaði ég aðstoðar til Svövu, viskubrunns og reynslubolta innan LC, sem kom mér í samband við svæðisstjórann á Skáni og síðar meir formann í LC 86 í Helsingborg. Ég útskýrði mitt mál lauslega og lýsti yfir áhuga mínum til að kynnast klúbbi þegar út væri komið. Um hæl fékk ég svar frá svæðisstjóranum (einnig meðlimur 86) sem bauð mig eins velkomna og hægt er. Hún hafði þá ásamt nokkrum öðrum kynnst Svövu og fleiri íslenskum konum á AGM í Sönderborg fyrr um sumarið og mundi vel eftir íslenska hópnum. Hún tjáði mér að ég væri hjartanlega velkomin á fund hvenær sem er og lýsti yfir ánægju sinni að fá „Icelandic viking“ í klúbbinn þeirra. Þar að auki tilkynnti hún mér að hún þekkti stöðuna sem ég væri í, að flytja ein erlendis, og bauð mér allan mögulegan stuðning og hjálp sem hún gat útvegað.

Með risastóran hnút í maganum rölti ég á minn fyrsta fund. Ég man að ég hugsaði til fjarkanna minna heima á Íslandi og vonaði smá að ég væri nú bara að fara á fund með þeim. Þar sem allar þekkja mig og ég þekki allar – en þær sendu mér rafræn knús í gegnum snappið. Við hittumst fyrst á veitingastað þar sem við fengum okkur kvöldmat, en síðar var haldið í leiksýningu á Rómeó og Júlíu.. að sjálfsögðu á sænsku og þarna hafði ég einungis dvalið um tvær vikur úti og því sænskan enn frekar takmörkuð. Ég kannast nú nokkuð við söguþráðinn, auk þess að kunna textann hans Bubba utan að frá unglingsaldri þannig ég klóraði mig nokkuð örugglega frá þessari leiksýningu – sem var þó mjög fróðlegt. Þar að auki var fundurinn stórskemmtilegur. Ég get ekki útskýrt það nógu vel en það var svo notalegt að hitta þær og strax frá fyrstu stundu leið mér svo vel með þeim. Mér leið svo velkomin og algjörlega ein af hópnum. Ég fann svo innilega að LC tengslin hafa engin landamæri – það er bara algjörlega satt! Á fundinum héldum við þrjár mínúturnar og/eða kynningarhringinn á ensku fyrir mig en síðar meir bað ég þær að halda sig við sænskuna svo ég gæti æft mig. Í framhaldi af þeim fundi hélt ég áfram að hitta LC 86. Félagsstarfið er í rauninni mjög svipað og á Íslandi en þær eru þó með meiri áherslu á góðgerðarmál og halda árlega viðburði til styrktar hinum ýmsu málefnum. Til dæmis „Tipsrunda“ sem er svokallaður ratleikur sem er haldin úti í skógi og opin öllum borgarbúum. Þar eru þær með kaffisölu, lottó og fleira en allur ágóðinn rennur til góðra málefna. Þær hittast einnig reglulega með börnin/fjölskyldum sínum og halda góðu samstarfi við RT klúbbana í borginni sömuleiðis. Ég fann mig virkilega vel með umræddum klúbbi en prufaði líka að fara á fund með LC 2 í borginni ásamt því að hitta eina íslenska konu sem er í LC 136 – en alls staðar sem ég kom var mér tekið með opnum örmum. Þá fannst mér sérstaklega skemmtilegt að fara með þeim á „Distrikt meeting“ sem var haldinn í Hässleholm þar sem allir klúbbarnir á svæðinu hittust og áttu saman góða kvöldstund. Einnig fór ég í virkilega áhugaverðar fyrirtækjaheimsóknir, til dæmis á einkarekna skartgripa hönnunarstofu, skoðuðum baksviðs í leikhúsinu og kynntumst starfsemi Värmestugan, sem er hjálparstofnun heimilislausra. Við áttum einnig ótrúlega skemmtilegan dag í Prison Island (svipar til RVK escape), afterwork með RT mönnum, héldum sæmilega klikkað Julfest og Sommarfest ásamt öðrum fundum.

Ég get hiklaust sagt fyrir mitt leyti að einungis sú staðreynd að vera LC kona hafði mjög góð áhrif á dvöl mína í nýju landi. Það er einfaldlega ómetanlegt að flytja ein í nýtt land, þekkja engan en geta samt átt öruggan stað hjá hópi kvenna sem er tilbúin að aðstoðað þig þegar kemur að hverju sem er. Veita þér ráðgjöf, félagsskap eða einfaldlega kærleik þegar þú þarft á að halda.
Mig langar hér með að skora á allar þær LC konur sem hafa einhvern tímann velt fyrir sér að kynna sér alþjóða starf LC betur – að einfaldlega gera það. Það er mögnuð tilfinning að finna þessi tengsl og kynnast enn fleiri LC konum sem þú jafnvel heldur að séu ólíkar þér, en í lok dags eru ósköp „venjulegar“ konur eins og ég og þú.

Bestu kveðjur
Halla Mjöll Stefánsdóttir
LC 4