Rokkurinn – Anna Björg Leifsdóttir og Tinna Ósk Óskarsdóttir, LC5 á Húsavík

Janúarfundur LC5 Húsavík.

Í vetur hefur motto LC5 við að huga að okkur sjálfum, bæði sem einstaklingum og hóp. Í janúar var yfirskrift fundarins fyrirlestur og fræðsla og voru það Anna Björg og Tinna Ósk sem sáu um fundinn.

Þegar klúbbsystur mættu á fundinn vissu þær bara um dagskrá fundarins sem fylgdi fundarboði en ekki hvað væri gert eftir að fundi væri slitið. Fyrirmælin voru þau að hvorki mætti drekka áfengi fyrir fund né á fundinum sjálfum, þær ættu að hafa með sér bók/blað og penna og 1000 kr.

Fundurinn var haldinn föstudagskvöldið 18. janúar heima hjá Önnu Björgu. Mæting var nokkuð góð en það voru 13 konur sem sátu fundinn. Í 3 mínútum sagði hver og ein frá sínum markmiðum fyrir árið 2019 og voru þau fjölbreytt og skemmtileg. Að vanda var hreyfing og hollusta ofarlega á blaði en auk þess sagði ein frá sínu markmiði sem er nýtni og nægjusemi sem er virkilega áhugavert og skemmtilegt markmið. Í hópnum er áhersla á að huga að okkur sjálfum og skein það í gegn hjá öllum.

Að loknum formlegum fundi hélt hópurinn í nýtt húsnæði Jógaseturs sem er að opna hér á Húsavík. Það var Huld Hafliðadóttir, eigandi Spirit North, sem tók vel á móti okkur. Við settumst í hring á dýnur með teppi og púða og fengum góða fræðslu frá Huld. Hún er Kundalini jógakennari frá árinu 2011 og hefur kennt jóga á Húsavík og í nærsveitum síðan. Huld er stútfull af fróðleik og nærvera hennar er þægileg og góð. Að fræðslunni lokinni skrifuðum við hjá okkur hver fyrir sig um sjálfsmildi en það er tengt orðinu sjálfsást. Þegar við höfðum lokið við skrifin leiddi Huld okkur í Jóga Nidra en á heimasíðu Spirit North kemur fram að það er jógaástundum sem hefur notið vaxandi vinsælda í hinum vestræna heimi á liðnum árum. Aðferðin losar um streitu og spennu sem fylgir auknu álagi, hraða og annríki nútímamannsins. Nidra þýðir svefn, en ólíkt svefni er Jóga Nidra meðvituð, djúp slökun, mætti líka kalla liggjandi hugleiðslu. Í Jóga Nidra er leitt í djúpt slökunarástand handan skilningarvitanna, þar sem engin streita býr og fullkomin eining ríkir. Þessi djúpa slökun hjálpar við að losa um spennu og hindranir hugans sem geta dregið úr okkur í daglegu lífi.

Því næst fengum við að prófa Gong slökun sem var mjög áhugavert að fá að prófa.

Á heimasíðu Spirit North segir: ,,Gong er fornt og heilagt hljóðfæri fyrir heilun, endurnýjun og umbreytingu. Gong gefur frá sér sterka hljóðbylgju, næstum áþreifanlega við snertingu, sem örvar líkamann með því að hafa áhrif á yfirborð húðarinnar og sérhverja frumu. Líkamlega losar gonghljómurinn um spennu og hindranir í líkamanum og örvar starfsemi innkirtlakerfisins og taugakerfisins, það eykur lífsorku og bætir blóðrásina.”

Í hópnum voru ýmsar upplifanir af hljóðinu sem Gongið gaf frá sér en eðlilegt þykir að sumum finnist hljóðið óþægilegt í fyrstu en svo hafi það þau áhrif að viðkomandi komist í djúpa slökun.

Á heimasíðunni segir einnig: ,,Hljóðin sem gongið framkallar eru þau sömu og heyrast í útgeimi, þau eru hljóð sköpunar. Gongslökun er kraftmikið lækningartæki fyrir taugakerfið, líkama og sál. Gongið hjálpar okkur að hreinsa undirmeðvitundina og losa um stanslausar hugsanir. Hljóðin sem gongið framkallar eru hljóð sköpunar, taka þig ýmist upp í himinhvolfið eða djúpt inn í nærandi slökun. Gong slökun er mögnuð leið að „sleppa takinu“ og falla frjálst í djúpa innri kyrrð. Sagt er að hugurinn hafi engar varnir gagnvart hljómum gongsins.”

Í lokin drógum við aftur fram penna og blað og skrifuðum hjá okkur hvar við viljum vera í lok árs árið 2019 en það tengdist vel því sem við höfðum rætt á fundinum.

Allar fóru slakar og sælar heim eftir þennan fína fund í frábærum félagsskap.

Kveðja, LC5.

 

Heimasíða Spirit North:  https://spiritnorth.is/spirit-north/

Comments are closed.