Rokkurinn – LC1, Hlátur, gleði og gaman!

Hlátur, gleði og gaman! Þetta er einfalda samantektin á því hver upplifunin var af ferðinni til Vestmannaeyja á fulltrúaráðsfundinn í október.  Það er hinsvegar staðreynd að þessi ferð nærði hjartað svo mun meira en það. Alls lögðu 7 konur úr LC 1 leið sína til Eyja og framundan var þó nokkurt ferðalag.  Sumar úr hópnum höfðu aldrei komið til Eyja og tilhlökkunin og eftirvæntingin var mikil. Það var ljóst upp úr hádeginu á föstudeginum að sökum veðurs yrði siglt frá Þorlákshöfn. Þangað var því stefnan tekin eftir flug suður seinnipartinn. Ég get ekki sagt að það hafi kallað fram sérstaka tilhlökkun að sigla frá  Þorlákshöfn enda undirrituð lítil sjóhetja og var það sama uppi á teningnum með fleiri í hópnum. Til að setja öryggi á oddinn var því fjárfest í sjóveikistöflum og kojum og komu hvoru tveggja aldeilis að góðum notum. Þegar komið var til Eyja eftir siglinguna lá leiðin beint á gistiheimilið þar sem  hópurinn dvaldi í vægast sagt “speisaðri” gistingu. Drottningarnar að norðan sváfu í einhverskonar hylkjum (ein í hverju hylki) sem lýst voru upp með fjólubláum ljósum líkt og sjá má í ljósabekkjum. Það fór hinsvegar afar vel um okkur og við nutum þess virkilega að vera allar á sama stað.  Þið þekkið það konur hversu ljúft það er að geta tekið sig til saman og jafnvel skálað í eins og einum drykk á meðan ýtt er enn frekar undir náttúrulega fegurð okkar. Jólateitið sem boðið var upp á var hið skemmtilegasta enda Eyjaskeggjar þekktir fyrir að vera góðir gestgjafar og ætíð í miklu stuði. Þetta kvöld var eins og segir í laginu BOBA…bomba! Það var mikið dansað, hlegið og seint farið að sofa – sumsé, nákvæmlega eins og þetta á að vera! Laugardagurinn rann upp og haldið var sem leið lá á fundinn sem haldinn var í golfskálanum.  Fundurinn gekk ágætlega fyrir sig og kláraðist á réttum tíma. Eftir fund var bærinn aðeins skoðaður, sumar kíktu á safnið Eldheima og aðrar nutu þess að setjast niður saman og spjalla við aðrar LC konur.

Um kvöldið var aftur komið saman í golfskálanum og það er alveg ljóst að þetta kvöld gerði ekkert fyrir baráttuna við aukakílóin! Hlaðborðið sem boðið var upp á var hreint út sagt ómótstæðilegt og vel þess virði að hafa haldið út siglinguna með Herjólfi frá Þorlákshöfn! Unga stúlkan sem mætti með gítarinn  sinn var líka algjör milljón og lagavalið allt frá vinsælum Eyja-lögum yfir í lag þar sem sungið var um ákveðna tegund af „pínu”!  Heimferðin frá Eyjum var þægileg þar sem siglt var til Landeyjarhafnar. Það er hinsvegar gjörsamlega galið að það sé litið á það sem vandamál ferðamannsins að koma sér frá  Landeyjarhöfn til Þorlákshafnar þar sem bílarnir voru skildir eftir! Við vorum svo heppnar að ein úr hópnum er stórnotandi ákveðinnar bílaleigu og hafði sambönd sem redduðu málum. Vonandi finnst lausn á þessu fyrir allt það fólk sem ferðast reglulega milli lands og Eyja.

Sem fyrr segir skildi þessi ferð ekki aðeins eftir sig hlátur, gleði og gaman.Ég vil hrósa stjórn klúbbsins míns einlæglega fyrir að styðja svona vel við bakið á þeim konum sem vildu leggja leið sina til Eyja, því að með því er einnig lögð áhersla á samskipti LC kvenna innanlands. Það er jú þannig að hver og ein kona starfar á sínum forsendum í hreyfingunni. Sumar velja að njóta og gefa af sér heima í héraði, aðrar kjósa að starfa á landsvísu og enn aðrar fara alla leið og starfa á heimsvísu. Allar leiðir eru réttar og jafnmikilvægara. Það sem skiptir máli er að við vinnum ætíð samkvæmt einkunnarorðunum vináttu og hjálpsemi, að við getum látið gott af okkur leiða og að starfið í hreyfingunni geri okkur að betri manneskjum. Takk kæru LC konur fyrir samveruna í Eyjum, bæði konurnar í klúbbnum mínum sem ég tengdist enn frekar þessa helgi og þið hinar sem nutuð helgarinnar með okkur. Einlægar þakkir til LC kvenna í Eyjum fyrir hlýjar móttökur og vonandi sjáumst við sem flestar í vor á Akureyri.

Comments are closed.