Rokkurinn – LC7, Vinahjarta

Við sjöurnar ákváðum að fara óhefðbundna leið í skrifum okkar í Rokkinn að þessu sinni. Þar sem þið getið lesið fundargerðirnar okkar og séð myndir frá fundum inn á samskiptasíðunni góðu þá langar okkur að segja ykkur frá vinahjartanu okkar.

Við skulum spóla aftur um 4 ár og heimsækja árið 2013. Í byrjun þess árs fengu RT-5 menn vinarhorn að gjöf frá vinum sínum í Suður-Afríku. Það vill svo til að nokkrir öðlingspiltar úr RT-5 sænga hjá nokkrum skvísum í LC-7 og í Sokkatúni var þetta vinahorn hluti af koddahjali hjónanna Hildar og Nonna eitt kvöldið. Fengu þau þá góðu hugmynd að færa LC-7 vinahjarta að gjöf til að brydda upp á svipaðri hefð og vinahornið er. Við sem þau þekkjum vitum að þau koma sínum hugmyndum í framkvæmd og ekki leið á löngu er Hildur birtist með fallegt vinarhjarta á fund LC-7. Tilgangur vinahjartans er eftirfarandi:

…að efla og rækta vináttu milli klúbbsystra í LC7, maka þeirra og barna um ókomna tíð. Með því að láta vinahjartað ganga náum við að kynnast betur innbyrðis og eiga gæðastundir saman. Sterk vináttubönd, traust og virðing gerir klúbbinn okkar að sterkari heild og sterkari klúbbi. Við eigum eigum ekki að horfa á vinahjartað sem kvöð heldur skulum við fagna því og nota það sem tækifæri til að kynnast betur þeim konum sem við höfum kannski ekki haft tækifæri til þess að kynnast nógu vel. Handhafi vinahjartans er ekki skyldug til þess að halda miklar og stórar veislur þar sem öllu er til tjaldað. Eina sem þarf að gera er að gefa af sér örlítinn tíma og gæðastund með öðrum klúbbkonum og fjölskyldum þeirra.

Á þessum fjórum árum sem vinahjartað hefur gengið á milli klúbbsystra hefur ýmslegt verið brallað með og án maka&barna og mætingin einnig verið rokkandi frá tveimur og upp í fjórtán. Það sem af er þessu ári hefur verið haldið þrettándaboð með kræsingum og pakkaleik, notaleg kvöldstund, gleðistund á bar, gönguferð um fagra náttúru og hvítvínspartý með jógaívafi og hlátrasköllum.

Fái kona boð í slíkan hitting er nokkuð öruggt að hún fari úr honum með gleði í hjarta og ef til vill strengi í kjálka sem á rætur sínar að rekja til hláturs. Í þokkabót eru líkur á að hún hafi kynnst klúbbsystrum sínum örlítið betur og safnað með þeim í sameiginlegan minningarbanka. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það minningarnar sem lifa lengst.

Um leið og ég lýk þessari umfjöllun minni langar mig að þakka fyrir þau vinahjartaboð sem ég hef farið í í gegnum tíðina og hlakka til þeirra ókomnu.

María Aldís Sverrisdóttir

Ladies Circle 7

Comments are closed.