Rokkurinn 2015-16

Mars 2016 – LC14

Klúbburinn okkar, kynning á klúbbnum og starfsemi.

Við hittumst á laugardagsmorgni og renndum yfir myndir og minningar frá síðustu tveim vetrum í LC. Við vorum allveg tómar um hvað við ættum að skrifa um og vorum alvarlega farnar að spá í að koma þessu yfir á einhvern annan, hausarnir voru TÓMIR. Því lengur sem við skoðuðum myndir og rifjuðum upp skemmtileg atriði fylltumst við af þakklæti og gleði. Við erum svo þakklátar fyrir að fá að kynnast svona frábærum félagsskap og hvað það hefur verið gaman hjá okkur á þessum stutta tíma sem meðlimir í LC. Við búumst við því að næstu ár verði svipuð eða jafnvel skemmtilegri, ef mögulegt er.

Eins og þið flestar vitið vorum við í LC14 vígðar inn í vorið 2015 en vorum samt búnar að taka veturinn 14-15 sem einhverskonar prufu… sem heppnaðist einstaklega vel 🙂

Það voru ca 25 forvitnar konur allstaðar að úr Fjarðabyggð sem mættu á kynningafund vorið 2014 á Reyðarfirði, nokkrar galvaskar konur úr landsstjórn komu og kynntu þetta frábæra starf fyrir okkur. Það var svo gaman að sjá hvað þær úr landsstjórn nutu sín vel í þessum samtökum (OG GERA ENN…)  og fannst ekkert tiltökumál að skutlast eina kvöldstund á Reyðarfjörð til að kynna þau. Þessi brennandi áhugi smitaði útfrá sér, því þegar stofnfundurinn okkar var haldinn um haustið, mættu megnið af þessum 25 konum aftur 🙂

Fyrsti veturinn okkar fór aðallega í að kynna okkur starfið og kynnast hver annarri, móðurklúbburinn okkar LC-10 hjálpaði okkur að komast af stað og buðu okkur meðal annars á fundi með þeim. Við reyndum að hugsa út fyrir kassann og reyna að forðast þessa saumaklúbbastemmingu sem á það til að myndast í svona hópum, við vorum duglegar að prófa eitthvað nýtt, fórum í kynningu hjá slökkvIliðinu, héldum Bingó, og ýmislegt annað.  Það var síðan í lok maí 2015 sem landstjórn heimsótti okkur aftur og vígði okkur inn, þetta var frábær dagur í alla staði og ógleymanlegur fyrir okkur og vonandi þær í líka. Farið var vel útfyrir rammann hjá mörgum á þeim fundi. Við fengum frábæra hjálp frá félögum okkar í RT-16. Eitthvað var farið að týnast úr hópnum og þegar við hittumst aftur síðasta haust vorum við orðnar 12. Við ákváðum að bjóða dálítið duglega inn í klúbbinn og fengu ca 20 konur boð um að mæta á fund hjá okkur. Fyrstu fundir haustins fóru því í að kynna klúbbinn og samtökin en náðum því miður ekki að halda nægilega vel utan um þetta og misstum því nokkrar “gamlar” og nýjar út. Við munum læra af reynslunni og bjóða færri konum inn næst, þar sem aðhald var ekki nóg, enda mjög margar konur. Við munum halda áfram í þessum frábæra klúbb, að stíga út fyrr rammann og vonandi láta sem oftast eitthvað gott af okkur leiða. Við erum bjartsýnar á að með tíð og tíma munu konur allstaðar að úr Fjarðabyggð ganga í klúbbinn.

Þessi hópur hefur kennt okkur það að þó svo að við sækjumst eftir því að vera í klúbb eins og þessum þá þýðir það ekki að við séum steyptar í sama formið. Allar erum við einstakar á okkar hátt og hver og ein kona hefur eitthvað nýtt fram á að færa. Við lærum af hvor annarri og um hver aðra, það styrkir okkur bæði sem einstakling og sem klúbb.

Einkunnarorð Ladies Circle Íslandi vinátta, umburðarlyndi, tillitsemi, heiðarleiki, jákvæðni og náungakærleikur eiga svo sannarlega vel við þennan félagsskap. Þessi orð eiga ekki einungis við þegar við gerum eitthvað LC tengt, nú í dag fylgja þau okkur dagsdaglega og munu gera það í gegnum lífið.

Myndir úr vígslunni. Sjóferðin mikla. Hún fór misvel í fólk, varaformaðurinn Ásta ætlaði yfirum úr spenning á meðan Steinunn í landsstjórn ætlaði að fara af taugum 😉 En allt endaði vel.

 

 

Með allra bestu kveðjum úr Fjarðabyggð.

Þórunn María formaður og Ásta Kristín varaformaður

 

 

 

 

 

 

 

 

Febrúar 2016 – Aljóðadagur Ladies Circle

Að venju hittust klúbbar um allt land og fögnuðu saman alþjóðadegi samtakanna. Lesa má nánar um daginn í Reykjavík og á Akureyri í eftirfarandi greinum frá LC4 og LC7.

hjarta_lc_texti

LC 4 – Reykjavík

11. febrúar ár hvert höldum við Ladies Circle konur gleðilegan með því að koma saman. Síðustu ár höfum við fagnað honum með því að klúbbarnir á hverju landshorni hittist og halda sameiginlega fundi. Í ár var ákveðið að brjóta upp hefðina og hafa góðgerðarstarfsemi sem útgangspunkt þ.e. hittast og láta gott af okkur leiða.

Varaformenn klúbbanna á Reykjavíkursvæðinu komu saman í byrjun janúar og hófu undirbúning dagsins. Við ræddum hvaða leiðir við ættum að fara. Nokkrar hugmyndir komu fram, var ákveðið að hafa samband við nokkur góðgerðarsamtök og athuga hvort að þau gætu tekið á móti hóp/hópum þann 11. febrúar til góðra verka. Að undirbúa svona dag er ekkert einfalt mál og mörg atriði sem að verður að hafa í huga, s.s. tímasetning viðburðar, fjölda, kostnaður og hvort að viðkomandi geti yfir höfuð tekið á móti okkur þ.e. er starfsemi á þeim tíma sem að klúbbkonur geta komist.

Það fór nú svo að við skiptum hópnum í tvennt; Annars vegar fór hópur í fataflokkun hjá Hjálparstofnun Kirkjunnar og  hins vegar fór hópur í að spila bingó með öldruðum á Hrafnistu í Hafnarfirði og buðum við þeim vöfflur með rjóma og kaffi á eftir. Báðir hóparnir voru glaðir með þessa nýbreytni og fannst gaman að geta hjálpað til í fataflokkuninni og glatt fólk á Hrafnistu.

Að þessu loknu komu hóparnir saman á Gamla Vínhúsinu í Hafnarfirði. Þar var fundað og kom Björg Baldursdóttir verkefnisstjóri hjá Kópavogsbæ og hélt kynningu á móttöku Sýrlenskra flóttamanna. Spunnust miklar og góðar umræður. Að því loknu ræddum við hvort að klúbbarnir hefðu áhuga á að hafa frekara góðgerðarstarf  tengt þessum degi eða sem reglulegt starf hjá klúbbunum.

Það má segja að þessi viðburður hafi tekist vel og vonum við að það verði framhald á. Mikið gefur það okkur mikið að geta gert góðverk og glatt aðra.

Ladies Circle 4,

Ása Björg Þorvaldsdóttir ritari og Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður.

 

 

 

LC 7 – Akureyri

Í ár var bryddað upp á þeirri nýbreytni að setja góðgerðarstarf í aðalhlutverk á alþjóðadegi LC. Dagurinn bar yfirskriftina “Gerum eitthvað gott” sem má með sanni segja að úr hafi ræst. Akureyrarklúbbarnir þrír sameinuðust um þrjá viðburði; upplestur, söng og samveru með vistmönnum endurhæfingar-og öldrunarlækningardeilda Kristness, bingó og söng á öldrunarheimilinu Hlíð ásamt aðstoð við fatapökkun hjá Eyjafjarðardeild Rauða Krossins. Viðburðirnir heppnuðust afar vel og vöktu mikla lukku hjá íbúum þeirra stofnana sem voru sóttar heim.

Viðburðirnir voru ekki síður góð skemmtun fyrir LC konur sem sáu margar hverjar hvað félagsskapurinn einn getur verið góð gjöf. Þær konur sem aðstoðuðu við fatapökkun í Rauða Krossinum lögðu verkefninu “Föt sem framlag” lið, en verkefnið gengur út á að útbúa staðlaða ungbarnapakka ætluðum systrafélögum Rauða Krossins í Hvíta Rússlandi.

Að góðgerðarviðburðum loknum héldu klúbbsystur á sameiginlegan fund í sal Eyjafjarðardeildar Rauða Krossins og héldu kvöldið hátíðlegt með veitingum og hefðbundnum “3 mínútum” um góðverk. Kvöldinu lauk með fróðlegri kynningu Hafsteins Jakobssonar á starfsemi Eyjafjarðardeildar Rauða Krossins og móttöku sýrlenskra flóttamanna til Akureyrar í nýliðnum mánuði. Líkt og heyra mátti í frásögnum LC kvenna um þeirra síðustu góðverk, framlag bæjarbúa Akureyrar til móttöku flóttamannana og af viðburðum dagsins þá er óhætt að segja að margt smátt gerir eitt stórt. Góðgerðarhefð á alþjóðadegi LC er vonandi komin til að vera.

Kær kveðja,
LC7

 

 

 

Desember 2015 – LC15

Gleðileg jól!

Bada Din! Eða “stóri dagurinn” eins og vinir okkar í Indlandi kalla jólin eru á næsta leiti. Reyndar eigum við fæstar vini í Indlandi en þetta lærðum við á síðastliðnum jólafundi LC-15. LC-15 er nýlegur klúbbur og nýjum klúbbum fylgja nýjar hefðir og tala nú ekki um nýjan fróðleik.

Undirrituð heldur fast í hefðir ár hvert þegar kemur að jólunum og hefur aðfangadagur ávallt verið sá sami ár eftir ár. Afskaplega fátt hefur raskast í gegnum árin þrátt fyrir flutninga, barneignir og annað sem eðlilega setja svip sinn á hátíðirnar. Hver aðfangadagur hefur hafist á að opna gjöf frá Kertasníki og horft er á jólateiknimyndir fram að hádegi en þá hópast fjölskyldan saman og nýtur þess að borða möndlugraut. Engu máli skiptir hvernig aldurstalan hækkar, alltaf er það jafn spennandi að sjá hver fær möndluna og hvað leynist í pakkanum. Eftir grautinn hefur faðir minn farið með okkur systurnar í jólakortaleiðangur þar sem við skiptum jólakortabunkanum á milli okkar og stökkvum svo út í skaflana og finnum rétta bréfalúgu. Það er þó helst þessi hefð sem hefur raskast enda í nógu að snúast þegar maður er sjálfur kominn með fjölskyldu og aðrar skyldur sem bíða. Eftir keyrsluna var farið heim en þar tók móðir okkar á móti okkur með heimabökuðum smákökum og heitu kakói. Á þeim tíma var maður heldur farinn að spýta í lófana því þá þurfa fjölskyldumeðlimir að skiptast á að fara í jólabaðið en það þurfti nú ekki mikið að reka á eftir manni þar sem við tók að raða pökkunum undir tréð. Móðir okkar geymdi pakkana í stórum pokum í kjallaranum svo yfirleitt sáum við systur pakkana okkar í fyrsta skipti á þessum tímapunkti. Klukkan 18 var farið í messu og móðir okkar syngur þar í kórnum. Við systur skiptumst á að spyrja föður okkar hvað klukkan væri og að meta út frá messuskránni hvað gæti verið langt eftir af messunni en í dag kann maður að meta þenna eina klukkutíma á ári sem maður fer í kirkju, hlustar á falleg lög og predikun prestsins. Eftir messuna er haldið heim og þar borðum við saman, ár hvert, kalt hangikjöt, uppstúf, kartöflur og leynisalatið sem við trúðum lengi að væri í alvöru hernaðarleyndarmál. Við tók uppáhalds tími allra barna, að opna pakkana og þvílík gleði sem fylgdi því.

 

Þrátt fyrir fastmótaðan aðfangadag og að vera lítið tilbúin að hreyfa við hefðum verður að segjast að ég hlakka mikið til að eiga nýjar hefðir með Ladies Circle. Jólafundurinn var annnar fundur LC-15 frá tilurð hópsins, borðaður var góður matur, skipts á jólagjöfum og farið var í pub-quiz þar sem við jú lærðum hinn ýmsa fróðleik um jólin, m.a. í hvaða landi jólin væru kölluð Bada Din. Einnig þurftum við að óska gleðilegra jóla á fjórum tungumálum, svo frá okkur í LC-15 segjum við:

Gleðileg jól

Merry Christmas

God jul

¡Feliz Navidad

Jólakveðja, Lísbet Hannesdóttir, varaformaður LC-15.

 

Nóvember 2015 – LC13

Nýr klúbbur, nýjar vinkonur og nýr félagsskapur

Ladies Circle! Ha hvað er það?  Þetta höfum við oft heyrt og upplifað á þessu fyrsta formlega starfsári  okkar í LC 13.  Spurningar eins og „hvað eruð þið að gera?“, „hverjar eru í þessu?“ og „hvernig datt ykkur þetta í hug? hafa komið upp í umræðunni þegar við höfum verið að ræða þennan skemmtilega félagsskap við vini og kunningja.

Það getur verið flókið að stofa nýjan klúbb þar sem enginn þekking eða reynsla er í hópnum á hugmyndafræði og  fundarformi LC.  En með þrautsegju, forvitni og vinnusemi höfum við haldið kjarnanum í hópnum og verið vígðar formlega inn í Ladies  Circle Ísland.  Það sem hefur gert okkur að sterkum LC klúbbi í dag eru margir og mismunandi þættir.  Fyrsti kynningarfundurinn sem haldinn var  í Grindavík var áhugaverður.  Þar komu nokkrar konur úr landsstjórninni og kynntu starfssemina fyrir okkur.  Það sem allar þessar konur áttu sameiginlegt var einlægur áhugi og gleði sem skein úr andlitinu þegar þær voru að segja frá starfseminni – þær náðu algjörlega að smita mann af forvitni og lífsgleði.   Að skoða myndir, hlusta á frásagnir um allt það sem þær voru búnar að kynna sér, læra og látið gott af sér leiða var bara eitthvað svo spennandi.  Og nú þegar við erum komnar af stað þá erum við að upplifa nákvæmlega það sama og við skynjuðum hjá landsstjórninni, þennan ákafa, þessa gleði og víðsýni.  Þetta er alveg hrikalega gaman!

Þær hindranir sem við höfum helst verið að glíma við er tíminn – nútímakonan í dag hefur svo margt og mikið að gera og stundum er erfitt að forgangsraða.  Ég viðurkenni það að stundum hefur læðst sú hugsun að manni eins og „er ekki alveg nóg að gera hjá þér“ „þarftu að vera í öllu og allstaðar“ og svo framvegis, en að mæta á fund, hitta þessar dásamlegu konur og leyfa sér að njóta stundarinnar án fordóma og með jákvæðnina að leiðarljósi hefur gefið manni svo margt.  Við höfum oft rætt það í okkar klúbbi að mánudagskvöld eru svona „me time“ þar sem við fáum tækifæri til þess njóta okkar sem „ég“ en  ekki sem „mamman ég“ eða „starfsmaðurinn ég“  heldur bara ég!

Kærleikskveðja, Þórunn Svava Róbertsdóttir, formaður í LC 13

Hér koma nokkur skilaboð frá konum úr LC 13:

lc9_rokkurinn15

 

September 2015 – LC1

Á afar ólýðræðislegan hátt var ákveðið að LC félagar septembermánaðar væru formaður og varaformaður. Ástæðan er einföld. Þær ráða. Öllu. Það fylgir nafninu!

Í september vorum við nöfnurnar, eins og væntanlega margar LC konur um allan heim, ennþá svífandi um eftir stórkostlegt AGM á Akureyri í ágúst. Allur aðdragandi ráðstefnunnar sem og viðburðir hennar, einkenndust öðru fremur af einkunnarorðum LC; vináttu og hjálpsemi. Það var magnað að sjá hvernig fjöldi LC kvenna lagði sitt af mörkum við að undirbúa móttöku um 500 kvenna alls staðar að og ánægjulegt að upplifa hvernig hver og ein nýtti sína styrkleika og kraft til að gera þennan viðburð að eins magnaðri upplifun og raun bar vitni. Það er ljóst að sá kraftur og sú viska sem býr í LC konum á sér engin takmörk. Hjálpsemi og vinátta var alls ráðandi; fyrir, á meðan og á eftir.

1

Frágangur eftir gala!

Við nöfnurnar eigum það sameiginlegt að hafa farið á okkar fyrsta AGM fyrir rúmu ári síðan, þegar það var haldið í Litháen. Þar upplifðum við ólýsanlegu stemningu á öllum viðburðum. Við höfðum t.d. ímyndað okkur að skrúðganga gæti verið eitthvað lágstemmd og vandræðaleg, en viti menn – það myndaðist rafmögnuð gleðistemning er við gengum um þröngar götur Viliniusborgar. Við brostum út að eyrum allan tímann, sungum og hlógum J  Upplifunin af þeim viðburðum sem komu í kjölfarið var einstök. Við vissum ekki hvort stöllur okkar í LC1 trúðu okkur þegar við lýstum því hversu æðisleg upplifun það væri að fara á svona AGM, en eftir stuðið hér heima í ágúst, teljum við að þær séu allar sannfærðar og vonandi fjölmennum við sem aldrei fyrr til Danmerkur 2017

Vináttukveðja,
Ragnheiður Ásta og Ragnheiður Lilja     2

Október 2015 – LC9

Að morgni laugardagsins 12. sept héldu hressar LC-9 skvísur í haustferð. Mæting var í bítið fyrir framan guðshúsið í Keflavík þar sem farangri, góðgæti í föstu og fljótandi formi var raðað niður í bílana að ógleymdum ofurspenntum dömunum.

 

 

 

 

Ferðinni var heitið í höfuðborgina þar sem Kaffihús Vesturbæjar beið okkar með rjúkandi kaffi og crosaint. Eftir kaffidrykkju, spjall og notalega stund á kaffihúsinu var ferðinni haldið áfram. Nú fór bílalest ofurskvísanna austur á Þingvöll þar sem Fanney Petra og María buðu okkur í bústaðinn sinn. Við skáluðum í appelsínugulum glösum sem við þurftum að merkja okkur með því nafni(dulnafni) sem okkur sýndist. Áttum við yndislega stund í fallegum bústað í himnesku umhverfi.

Eftir sumarbústað ókum við örstutta stund en næsti viðkomustaður var Ion hótel hjá Nesjavöllum. Við fengum gómsæta kolagrillaða hamborgara borna fram á tréplöttum, sumar fengu sér bjór, aðrar léttvín, einhverjar aðeins sterkara. Þegar við höfðum gætt okkur á borgurum, skoðað hótelið, spjallað og síðast en ekki síst hlegið var kominn tími til að bruna á Selfoss.

Einhverjar höfðu ekki komist í búð lengi og þar sem klukkan nálgaðist lokunartíma verlsana var brugðið á það ráð að hringja í tvær vel valdar verslanir og þær beðnar um að hafa opið örlítið lengur þar sem hópur af hressum guggum væri á leiðinni. Biðu báðar verslanirnar opnar og var önnur opin einni og hálfri klukkustund lengur en gerist og gengur. Sveif þar um búðina ung stúlka með þá ríkustu þjónustulund sem fyrirfinnst af hennar kynslóð. Voru það líka nokkrir pokarnir af klæðum sem runnu út úr búðinni það síðdegið.

Þegar hér var komið við sögu þurfti að sturta, snyrta, greiða og sparstla skvísuhópinn sem gisti í glæsilegum íbúðum Bella apartment. Nýpússaðar gellur töltu í Tryggvaskála og áttu þar góða kvöldstund yfir mat og drykk. Bella apartments varð aftur fyrir valinu meðan ákveðið var hvert skyldi halda til að hrista skankana yfir góðri tónlist. Einhverjar létu sér þetta nægja og hölluðu sér glaðar á koddann eftir spjall meðan aðrar létu til skara skríða og héldu á vit ævintýranna.

Í bítið daginn eftir var boðið upp á heilsusamlegan Chiagraut með möndlumjólk sem skipuleggjendur höfðu útbúið. Guggurnar voru misfljótar að vakna og hressleikinn eftir efnum og aðstæðum, en allar héldu þær glaðar heim og vottaði fyrir þakklætistárum yfir ríkidæmi vináttunnar í hópnum.