Ferðasaga AGM Haugesund 29. ágúst til 2. september 2018

Ferðalagið hófst þegar Eva og Hildur Halldórs komu heim til mín kvöldi fyrir brottför og fengu að gista. Fiðringurinn varð það mikill að lítið var sofið þá nóttina. Þetta var mitt fyrsta AGM og ég trúi því eiginlega ekki að ég sé búin að vera í Ladies Circle síðan 2009 og aldrei drifið mig út áður. Mig hefur alltaf dreymt um að fara en aldrei látið verða af því. En nú loksins var komið að því.

 

Á flugstöðinni héldum við Tjúttur smá fund. Það vildi svo skemmtilega til að það var brottför á svipuðum tíma hjá LC konum sem voru að fara með mönnum sínum til Sri Lanka. Þar skáluðum við og glöddumst yfir komandi ævintýrum.
Svo var flogið til Oslo og í framhaldinu til Haugesund. Flugvélin til Haugesund var full og LC konum og því mikil gleði. Þessir örfáu farþegar sem tilheyrðu ekki LC horfðu á okkur stórum augum og skyldu ekkert í þessu. Það virtist sem að allir þekktu alla óháð hvaðan þeir komu og gleðin var ríkjandi og mikið hlegið.

Þegar við komum á hótelið þá fórum við á herbergin og komum okkur fyrir en fórum svo saman út að borða og svo að sofa eftir langan ferðadag.

Fimmtudagurinn hjá mér var frídagur. Í morgunmatnum ákváðum við að fara í göngutúr um bæinn. Hjá okkur settist kona sem var búin að týna hópnum sínum og það endaði þannig að hún kom með okkur í göngutúr. Þvílík gæfa sem það var, hún Ann frá Belgíu lærði ferðamálafræði og leiddi okkur á alla helstu staði Haugesund. Ég verð að segja að andrúmsloft vináttu var allsstaðar ríkjandi í þessum hóp og það er svo mikill kærleikur fólgin í þvi að vita að þú ert velkomin hvar sem er. Hún Ann féll í hópinn sem ein af okkur, svo opin og gaman að fá tækifæri til að umgangast svona skemmtilegan karakter.

Ég var búin að skrá mig í skipulagða borgarferð. Í henni fórum við að vísu á nokkra sömu staði og hún Ann hafði leitt okkur að en borgarferðin var með meira sögulegu ívafi. Haraldur hárfagri var þar í aðalhlutverki og fórum við meðal annars að styttu af honum og áætluðum grafreitum hans en það eru víst tveir sem koma til greina.

Ráðstefnan var sett í ráðhúsinu og svo örkuðu um 500 konur í fullum skrúða frá Ráðhústorginu niður að hótelinu. Það var standandi borðhald og konur fóru á milli allra borða og skiptust á pinnum og kynntust. Svo var dansað fram á nótt.

Ég viðurkenni að það var erfitt að vakna á föstudagsmorguninn til að sitja aðalfundinn en samt ekkert sem nokkrir kaffibollar löguðu ekki. Farið var yfir lagabreytingar og helstu mál. Svo var kosinn ritari og varaalheimsforseti. Heimapartýið á föstudagskvöldinu var einstakt. Ég var svo heppin að ég náði að sækja tvær konur heim í þessari ferð og hús þeirra voru risastór og fullkomin í að halda stór partý sem þessi. Maturinn var góður og félagsskapurinn frábær. Í framhaldi af partýinu var haldið niður á hótelið þar sem lifandi tónlist var spiluð og við dönsuðum frá okkur allt vit.

Á laugardeginum var komið að því að sitja minn fyrsta fund sem fulltrúi. Málin voru rædd og kosið um nokkur mál. En þegar koma að framkvæmd kosninga um hvar næstu MTM ættu að vera haldin þá gekk það brösulega þar sem verið var að taka of stór skref í innleiðingu svæðisbundinna funda. Þetta hafðist þó og Ísland kom og kynnti sinn fund sem og Austurríki og Suður-Afríka. Niðurstaðan var að Ísland heldur MTM árið 2020 og Austurríki sömuleiðis.

Galakvöldið var haldið á
ráðstefnuhótelinu og tókst vel í alla staði. Okkur var raðað á borð og lenti ég á borði með nokkrum sem höfðu verið með mér í heimapartýinu kvöldinu áður. Þetta var semsagt þriðja kvöldið sem ég dansaði trylltan dans en verð þó að viðurkenna að úthaldið var eitthvað minna þetta kvöldið.

 

Það sem mér finnst standa uppúr eftir þessa fyrstu ferð mína fyrir utan landssteinana er vináttan sem einkennist af því að geta gengið inní hvaða hóp sem er og fengið að tilheyra honum. Stoltið og stuðningur finnsku stelpnanna við sinn
fráfarandi alheimsforseta var einstakur. Þær fjölmenntu til að sýna henni stuðning en vináttan og kærleikurinn sem þær lögðu í stuðning sinn við Anne lét engann ósnertan.

Ég fer heim afskaplega þreytt en glöð með nýja vini og nýja reynslu. Það er MTM í Litháen árið 2019 og ég hvet ykkur allar sem hafið ekki farið erlendis til að láta vaða og öðlast nýja sýn á vináttuna og gildin sem við störfum eftir.

Guðbjörg Björnsdóttir
LC6, varalandsforseti 2018/2019

Comments are closed.