Inntaka nýrra félaga

FRAMKVÆMD Á INNTÖKU NÝRRA FÉLAGA Í LC KLÚBB

Grein 1
Í upphafi skal kveikt á kerti, sem er tákn vináttunnar í LC. Formaður og varaformaður klúbbsins framkvæma athöfnina. Á meðan standa allir viðstaddir og greinar 2 og 3 í lögunum eru lesnar upp.

Grein 2
Einkunnarorð landssambandsins eru: Vinátta og hjálpsemi.

Grein 3
Markmið Ladies Circle eru:
1. Að auka áhugasvið félaganna og þekkingu þeirra á lifnaðarháttum annarra og efla sjálfstæði þeirra og umburðarlyndi.
2. Að efla alþjóðlegan skilning og vináttu. Þessum markmiðum skal m.a. náð með fundum, fyrirlestrum, umræðum og þátttöku í alþjóðlegum fundum.
3. Trú og pólitík skulu ekki setja mark á klúbbana.

Nýir félagsmenn fá meðlimabréf og nælur (LC Ísland merki) og hver og ein er boðin velkomin í LC með handabandi af þeirri/þeim sem framkvæmir athöfnina.

Þar á eftir er lesið:
Með þátttöku okkar í Ladies Circle skuldbindum við okkur til að lifa eftir einkunnarorðum okkar: Vinátta og hjálpsemi og breyta eftir þeim. Vinátta í víðum skilningi er undirstaða Ladies Circle og markmið okkar er að hver og ein geti látið í ljós hugsanir sínar og skoðanir og verið þess viss að félagarnir séu opnir, víðsýnir og skilningsríkir.

Merki okkar táknar hjól rokksins, sem er tákn kvenna frá gamalli tíð. Hjólinu er skipt upp í sex hjörtu sem tákna:
Vináttu – umburðarlyndi – tillitsemi – heiðarleika – jákvæðni og náungakærleika

Þessi sex orð eiga að vera mikilvæg í okkar starfi og eins og hvert orð fyllir hvert hjarta, er sérhver einstaklingur mikilvægur til eflingar síns klúbbs.