Rokkurinn 2016-17

 

rokkurinn2

LC 15 – Hlið við hlið

Sælar kæru LC systur.

Umfjöllunarefnið sem við völdum (ekki) var Side by Side. Þegar þið lesið “ekki” innan sviga er átt við að þar sem við völdum síðast var ekki um annað að ræða. Auðvitað máttum við breyta efninu en ákváðum að halda okkur við það sem klúbbur sem ekki hefur ennþá tekið formlega þátt í samstarfi  LC og RT. Við eigum því enn mikið eftir.

Við erum tiltölulega nýr klúbbur og erum sífellt að læra, laga, breyta og umfram allt að kynnast hvor annari. Þar sem við erum svo nýr klúbbur höfum við ennþá verið að líta inn á við og ekki enn farið að leiða hug okkar að því að mynda samstarf við RT klúbb. Hugsanlega gætu skrif þessa pistils breytt því.

Líkt og rannsóknir sýna þá hefur samvinna beggja kynja jákvæðar afleiðingar fyrir hvers konar starfsemi og útkomu hennar. Við trúum því að samstarf líkt og Side by Side hafi jákvæð áhrif fyrir báða aðila, að ávinningur finnist á báðum stöðum.

Vissulega hefur það sömu þýðingu fyrir LC konur um allt land, mikilvægt er að konur geti fundið samstöðu með öðrum klúbbum, geti leitað til þeirra og sótt styrk eða þekkingu til þeirra. Til að mynda höfum við haft greiðan aðgang að móðurklúbbi okkar, LC1 frá upphafi. Til að byrja með notuðum við þennan stuðning ekki nægilega vel þrátt fyrir að stuðningurinn hafi verið í boði. Því er það okkur lærdómur að til þess að mynda samstöðu þarf að sækjast eftir því.

Við hvetjum því til samvinnu og samskipta allra klúbba, hvort sem það eru LC og/eða RT klúbbar því ávinningur verður alltaf til góða. Það þarf einfaldlega að sækjast eftir því.

Saman stöndum við

hlið við hlið

LC og RT

LC 14 – Alþjóðadagurinn

Að þessu sinni héldum við í LC – 14 alþjóðadaginn hátíðlegan með móðurklúbb okkar LC – 10. Dagurinn var pakkaður af skemmtilegum atburðum sem skipulagðir voru af varaformönnum klúbbanna, þeim Öddu og Sigrúni. Dagurinn byrjaði í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði. Þar hittust klúbbkonur og fjölskyldur þeirra. Við fórum í leiki, settum upp braut og aðrar stöðvar. Keppnisskapið var mis mikið í fólki en allir höfðu mjög gaman af. Þegar allir voru orðnir vel sveittir lá leiðin á Sumarlínu í pizza hlaðborð. Þar sem við vorum ansi mörg var nánast setið í hverjum einasta stól. LC – 10 vígði inn nýjar konur og allir sátu og átu eins og þeir í sig gátu látið. Eftir matinn fóru einhverjir siglingu á nýja björgunarbátnum Hafdísi, þar sem 112 dagurinn er haldinn hátíðlegur í þorpinu voru siglingar og annað skemmtilegt í boði hjá björguarsveitinni, slysavarnafélaginu og slökkviliðinu. Dagurinn endaði svo í sundlauginni. Það má segja að varaformenn klúbbanna hafi lagt sig alla fram við skipulagningu dagsins, þar sem íþróttahúsið og sundlaugin voru leigð og Sumarlínu höfðum við útaf fyrir okkur.

Samverustudir klúbbanna tveggja hafa hingað til ekki verið margar en eiga vonandi eftir að verða fleiri á komandi árum. Hvert skiptið sem við hittumst styrkjast böndin á milli.

LC 6 – Upplifun af starfi Ladies Circle

Ég flutti til Egilsstaða árið 2003 og árið 2009 er LC10 stofnað á Egilsstöðum. Það er árið sem Egilsstaðir varð að mínum heimabæ.

Líf mitt breyttist á augabragði og ég átti vinkonur sem ég gat heilsað útí búð og bankað uppá hjá í kaffi. Stuttu eftir að ég flutti til Reykjanesbæjar núna í sumar þá mætti ég í óvissuferð þar sem ég þekkti engan fullviss um að ég myndi mæta vináttu, hjálpsemi og umburðarlyndi þeirra kvenna sem þar yrðu. Gildi sem eru mér afar hjartfólgin og ég er viss um að heimurinn yrði betri staður ef allir hefðu þau að leiðarljósi. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Glaðar örkuðum við útí óvissuna og tókum þátt í alls kyns leikjum sem tók okkur út fyrir þægindarammann. Undir kvöld þá vissi ég nöfn flestra stelpanna og ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þeim.

Það að flytja í svona stórt bæjarfélag hefur verið dálítið yfirþyrmandi fyrir landsbyggðartúttuna. Það er svo vinalegt og hlýlegt að geta farið útí búð og jafnvel þekkt eitt andlit eða tvö og finnast maður vera hluti af samfélaginu. Flutningur fjölskyldunnar frá Egilsstöðum hefur verið eitt það erfiðasta sem ég hef gert en ég er viss um að fljótlega þá mun Reykjanesbær ekki aðeins vera skráð lögheimili heldur líka verða minn heimabær.

Kveðja, Guðbjörg, LC6

LC 4 Reykjavík – Klúbburinn minn

Það er óhætt að segja ég hafi kollfallið fyrir LC starfinu hratt og örugglega. Ég kynntist samtökunum  lítillega fyrir nokkrum árum, skoðaði það ekkert nánar, en ákvað að svala fovitninni fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan.

Í miðjum október 2015 slysaðist ég á fjölgunarfund Fjarkans. Á þeim tíma var klúbburinn í nokkuð erfiðri stöðu, meðlimum hafði fækkað stórlega á undanförnum misserum og voru þær orðnar sjö talsins.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umræddur fjölgunarfundur var vel sóttur og langtum flestar frá þeim fundi gengu síðar meir í klúbbinn. Eftir einungis örfáa mánuði hafði Fjarka konum fjölgað um helming og því orðin fjórtán kvenna klúbbur. Það er óhætt að segja að umrædd viðbót hafi gert Fjarkanum virkilega gott og svo sannarlega gert klúbbinn að þeim sem hann er í dag.

Það sem mér finnst einna helst lýsa Fjarkanum er augljóslega stuð og gleði. En svo skemmtilega vill til að um ræðir einmitt mottó klúbbsins sem er vísun í ástkæran formann hans, Svövu H. Friðgeirsdóttur, en hver sem þekkir Svövu veit að þar er á ferðinni eitt stykki heljarinnar gleðipinni. Þar að auki er frú Friðgeirsdóttir svokallaður reynslubolti innan hreyfingarinnar og því mjög kærkomið fyrir nýliða klúbbsins að leita til hennar, sem og annarra reynslumeiri meðlima klúbbsins. Fjarkinn inniheldur nefnilega dásamlega blöndu af reynslu og nýju blóði sem rennur saman í unaðslegan kokteil.

Annað sem mér finnst lýsa klúbbnum mínum er traust. En á þeim tíma sem ég hef verið í klúbbnum hef ég eignast góðar vinkonur sem ég virkilega treysti og trú á. Við kunnum svo sannarlega að fíflast og hafa alveg viðurstyggilega gaman – en við erum alltaf til staðar fyrir hvor aðra og kunnum bæði að hlæja og hryggjast saman. Það útaf fyrir sig er ómissandi og gefur manni svo mikið.

Það sem ég elska hvað mest við klúbbin er hvað við náum vel saman þrátt fyrir að vera margar hverjar svo ólíkar. Sennilega ætti ég til dæmis ekki samleið með mörgum þessara kvenna ef ekki væri fyrir klúbbinn. Þar af leiðandi er svo gefandi að tilheyra þessum félagsskap og finna að hver og ein er nákvæmlega jafn mikilvægur liður af heildinni og hver önnur. Fyrir mitt leyti á ég ofboðslega auðvelt með að vera ég sjálf innan klúbbsins og það taka mér allar alveg eins og ég er, jafnvel  eins hávær og óþolandi ég get verið. Það er augljóslega einstaklingarnir sem mynda hópinn og til þess verða allar að fá að blómstra og að tilheyra klúbbnum á sínum forsendum.

Frá og með næsta fundi verða klúbbskonur orðnar fimmtán og að minnsta kosti með  þrjár í sigtinu. Stemningin innan herbúða Fjarkans er sjóðandi og stuðið leynir sér hvergi þegar við komum saman. Ég er svo þakklátt fyrir að ég hafi endað í þessum yndislega klúbbi og að hafa kynnst LC samtökunum. Það gerir daginn minn að hitta þessa snillingar og ég hlakka alltaf svo til þegar kemur að fundi. Ég get ekki beðið eftir að vaxa og dafna innan kúbbsins og verða hluti af honum, og hreyfingunni, um ókomin ár.

Takk fyrir að lesa, Halla Mjöll Stefánsdóttir, ritari LC 4.

LC 8 – Fulltrúaráðsfundur Húsavík

Mikil eftirvænting var í lofti þegar við lögðum af stað til Húsavíkur á fulltrúaráðsfund.  Við vorum 3 konur sem tókum Focus á Húsavík, 2 úr áttunni og svo ein úr fjarkanum sem skemmti okkur konunglega með fjörugum sögum, Halla heitir sú og reyndist líka vera ofurhetja.  Aksturinn tókst mjög vel þó að við værum duglegar við slórið en fegurðin felst ekki síður í ferðalaginu en  áfangastaðnum.  Þegar við vorum komnar til Húsavíkur var það ljóst að við þyrftum að hita okkur upp í hasti því að sumir fundargestana voru með gott forskot á síðbúna ferðalanga og því komnir í góðan gír.  Við gerðum okkar besta og það er mitt álit að við höfum ekki síður verið hressar… Rútan kom og við vorum flutt í Sólvang í Tjörnesi og þvílík var fegurð veislugesta sem lá við að skyggði á fegurð sólarlagsins sem þó var mikil.  Þar blöstu við okkur bleikir og gordjöss meðlimir Ladies Circle og  Round Table sem skemmtu sér fram á rauða nótt þó að við þreyttu ferðalangarnir úr áttunni urðum að játa okkur sigraðar og tókum fyrri rútuna heim í það skiptið. 

Daginn eftir var svo komið að fulltrúaráðsfundinum og við fengum okkur gönguferð í  yndislegu veðri þar sem Húsavíkurbær skartaði sínu fegursta og dáðumst við að fagurri fjallasýn Fundurinn var haldinn á Sölku, flottum veitingastað í bænum. Ég lærði margt á þessum fundi enda minn fyrsti.  Ég fékk betri tilfinningu fyrir heildarmyndinni enda eru Ladies Circle alþjóðleg samtök og ég var þakklát að fara frá fundinum með þá vitneskju í farteskinu að ég væri að taka þátt í hjálparsamtökum sem rétta fjölda barna og bágstöddum um heim allan hjálparhönd.  Við Kristín kynntumst hressum Ladies Circle konum af Reykjanesinu sem skenktu höfðinglega af votum guðaveigum og ég þakka þeim kærlega fyrir ánægjuleg kynni og veigarnar.  Svo var refsað fyrir hinar ýmsu yfirsjónir og ég verð að viðurkenna að ég lét hanka mig á ýmsu, það er gott að vita til þess að trassaskapur minn fór í að styrkja gott málefni.  Maturinn var mjög góður enda er pizza og franskar fullkomin máltíð eftir skemmtilega næturskemmtun og örlítið ryðgaðan haus.  Ég þakka LC 5 kærlega fyrir góðan fund og flotta fundarstjórn.  Eftir fundinn fóru margar kvenna úr hópnum að kanna bæinn og held ég að skóbúðinn hafi hitt nokkrar og eins tískuvöruverslunin Töff föt þar sem einmitt nokkrir fundargesta keyptu sér töff föt. Ég sneri heim á hótelið eftir smá rölt og hvíldi lúin bein en svo var hafist handa við að undirbúa kvöldið og það er ekki alltaf auðvelt að velja rétta kjólinn fyrir slíkt tilefni en þetta hófst að lokum, upphitunin og snyrtingin.  Við mættum fallegu fólki í Tjörnesi  og skemmtum við okkur konunglega í trylltum dansi við undirleik Guðna trúbadors og annara tónlistarmanna.  Ég vil þakka sérstaklega öllum dansfélögum mínum þetta kvöld, konum og körlum sem ég þreyttist ekki á að ýmist bjóða í dans eða draga á dansgólfið.  Barþjónar afgreiddu áfengið af mikilli lipurð og fá mikið hrós fyrir.  Það leiðinlega við góðar skemmtanir er að þær taka enda og svo gerði einnig þetta kvöld og tóku áttukonur seinni rútuna tekin í þetta sinn. Á sunnudeginum var kominn tími til þess að fara heim og því ekkert annað en að pakka í tösku veisluklæðum og öðrum aðföngum og setja nýjan fókus, nú suður á bóginn…Skipuleggendur fá mikið hrós fyrir frábæra helgi og ég hlakka mikið til næsta stóratburðar hjá þessum frábæru samtökum til að kynnast enn fleirum og bæta enn góðum minningum í sjóðinn.  Takk fyrir okkur, skvísurnar úr LC 8

LC 7 Akureyri – Jólafundur

Jólafundurinn okkar var haldinn í dásamlegu umhverfi á kaffi Laut í Lystigarðinum á Akureyri. 16 konur voru mættar og tilbúnar í jólaævintýri í garðinum. Við höfðum staðinn útaf fyrir okkur og pöntuðum okkur dýrindis mat þangað frá veisluþjónustu í bænum, Kaffi Torg.

Áður en matur var borinn fram tóku konur sig til við föndur. Klippt voru út hvít léreftshjörtu, stimpluð með fallegum stimplum s.s. af uglum, hreindýrum og jólabjöllum, saumuð saman, fyllt með tróði og skreytt með blúndu og skrautsteinum. Þessi vinna vakti mikla lukku þó einhverjar hafi horft á saumavélarnar með efasemdaraugum til að byrja með! Þarna var stimplað, hlegið, saumað og skreytt sem aldrei fyrr og uppskáru konur 1-2 og jafnvel þrjú hjörtu hver sem prýða nú híbýli okkar.

Því næst var matur borinn fram, lambalæri með tilheyrandi meðlæti við mikla lukku.

Hefð er fyrir pakkaskiptum og mættu konur með einn pakka hver, á bilinu 1500-2000 kr sem númeraðir voru og dregið um yfir kaffi og eftirrétt í lok kvölds. Þrjár mínútur fjölluðu um skemmtilega jólaminningu þar sem margar skemmtilegar sögur komu fram og las Agla formaður líka ljóð eftir Þórarinn Eldjárn.

Frábært og skapandi kvöld að baki í notalegu umhverfi og góðum félagsskap.

Áshildur Hlín Valtýsdóttir

Fráfarandi formaður LC7

53 2 1

LC 12 Sauðárkrókur – 11. febrúar

17077836_699589970166068_259876217_nÞað var í hádeginu laugardaginn 11. Febrúar 2017 sem hópur föngulegra Skagfirskra (til ætta eða í hjarta) kvenna úr Ladies Circle 12 hittust heima hjá undirritaðri til matarneyslu, yndisauka og félagslegrar örvunar. Tilefnið var alþjóðadagur Ladies Circle International, og gleðin í hjarta okkar allra var ekta!

Upphaflega var planið allt annað! Í samfloti við systur okkar um gervallt norðurland ætluðum við að samstilla klukkur okkar og hitta alla klúbba (sem þær og gerðu) til gangs og til gamans. En þar sem við í tólfunni tókum það óumbeðið að okkur að slá öll barneignamet í Ladies Circle á landsvísu á síðasta ári* og vorum farnar að minna frekar á mjólkursamlag en virðulegan alþjóðlegan vináttuklúbb máttum við ekki langt frá dindildillandi ungum okkar fara. Til að sporna við arfaslakri mætingu sökum mjólkurframleiðslu tókum við Arney – háttvirtur formaður vor- þá ákvörðun að heima skildum við sitja fremur en halda yfir heiðina.

Frá upphafi hugsaði ég andrúmsloftið afslappað, skemmtilegt og veganestið það að komast, þó ekki væri nema í klukkutíma, frá geirvörtujaplandi og hádegismatsheimtandi afkomendum og eiginmanni með það uppáskrifað að svunta væri þemað og jafnvel yrði slegið í laufléttar og skemmtilegar þrjár mínútur (sem reyndar aldrei gafst tími til).

Þegar fyrstu konur mættu, þá hafði ég einhvernveginn náð að sulla saman í dýrindis súpu og af mér geislaði yfirvegun gestgjafans skrýdd svuntu úr íslenska búningnum, þó undir niðri kraumaði sambland af geðshræringu yfir að hafa náð að skófla skúffuðum fjölskyldumeðlimum út af heimilinu með þeim skilaboðum að láta ekki sjá sig fyrr en leyfi fengist til þess og klára allt 0,2 sekúndum áður en fyrstu konur mættu, og endurtekinni bón til frelsara vor um að það fyndist ekki á bragðinu að súpan hafi brunnið aðeins við kvöldið áður (sem á það til að gerast þegar heitmaðurinn er fenginn til að vaka yfir hellunni á meðan frúin bregður sér í búð að kaupa rjóma….).

17091343_699589973499401_788036279_o

Mimosa – Brönsdrykkur hinna snobbuðu í New York, ég gerði ráð fyrir að þau kynnu sitt fag  – fengu stelpurnar mínar þegar þær hver á fætur annari duttu inn svuntuklæddar og dásamlega brosandi. Við byrjuðum á að ræða aðeins daginn, veginn og afgreiða heitustu umræðuefni fjarðarins, en settumst svo að snæðingi. Gagnvart súpunni var ég annaðhvort bænheyrð, eða klúbbsystur mínar svona yfirnáttúrulega kurteisar, því ekki eitt einasta komment gaf til kynna að súpan hefði brunnið! Löngu eftir að súpudiskarnir tæmdust sátum við enn að njóta félagsskapar hvor annarar… Klúr einkahúmor, skemmtilegar sögur úr lífi hvor annarar og einfaldlega bara hrein og klár samkennd einkenndi þennan hádegisverð heima hjá mér á alþjóðadag Ladies Circle þann 11. Febrúar 2017!

Hrafnhildur varaformaður

*Órökstuddar og órannsakaðar heimildir

LC 1 Akureyri – Reynsla ný(legrar) LC-konu

Sælar, elsku systur í sörkli. Ég heiti Eyrún Elva Marinósdóttir, er þrítug nýbökuð mamma með tvær yndislegar bónusdætur í mínu lífi og í sambúð með teiblara á Akureyri. Mér datt í hug að segja ykkur í nokkrum orðum frá minni reynslu af því að koma ný inn í Ladies Circle.

Vorið 2014 var mér boðið á minn fyrsta fund hjá LC 1 á Akureyri. Ég mætti með læti og án þess að fara frekar út í það, þá kom ég heim í lögreglufylgd það kvöld! Djammviskubit gæti vel lýst líðan minni í kjölfarið og ég hugsaði með mér, að nú væri ég alveg búin að klúðra þessu – ég ætti nú varla afturkvæmt í þennan flotta hóp kvenna eftir svona frammistöðu. En annað kom nú á daginn og öðrum eins skilningi og opnum hug hef ég sjaldan kynnst. Það var eins og engum dytti í hug að fara að dæma mig útfrá einu kvöldi og fékk ég það á tilfinninguna að ég ætti nóg af tækifærum eftir til að sýna minn innri mann. Vinátta og hjálpsemi, víðsýni og kærleikur mættu mér þetta kvöld og mörg kvöld síðan. Í staðinn fyrir að vera erfið og vandræðaleg minning, breyttist minn fyrsti fundur í skemmtilega sögu og góðan ísbrjót (ég get sagt þér alla söguna á næstu árshátíð – ef systur mínar í ásnum segja hana ekki fyrir mig)!

Ég hef búið á Akureyri næstum hálfa ævina. Er í sambúð og á fjölskyldu í nágrenninu. Það þekkja kannski fleiri að þegar maður velur sér vini, er það oft fólk í svipuðum aðstæðum og þú, úr svipuðu umhverfi og á sama stað í lífinu. Óumflýjanlega breytast aðstæður, sumir fylgjast að og stofna fjölskyldur á sama tíma og búa áfram á sama stað. Öðrum samböndum getur verið erfiðara að viðhalda, þó vináttan sé enn til staðar. Eftir að bestu vinirnir hófu að dreifa sér um heiminn (Noregur, Ástralía, Sviss, Kambódía, Kópavogur og Húsavík til að nefna nokkra staði) og hin raunverulega starfsævi á þriggja manna vinnustað hófst, var eins og eitthvað vantaði.

Við inngönguna í Ladies Circle opnaðist nýr bær, nýr heimur. Þarna var hópur af konum sem þú hafðir ekki valið þér sem vini, og í öðrum aðstæðum hefðir kannski ekki gert –  konur af ólíkum aldri en þú, konur í öðrum starfsvettvangi, með önnur áhugamál, barnlausar konur og konur með nánast uppkomin börn, á allt öðrum stað í lífinu í frama og fjölskyldu. Í fyrstu virðist kannski eins og þær eigi lítið sameiginlegt. En allar erum við í þessari hreyfingu af ástæðu, við erum hér meðal annars til að kynnast öðru fólki, opna huga okkar fyrir lifnaðarháttum annarra, auka áhugasvið okkar og þekkingu, efla sjálfstæði okkar og umburðarlyndi. Síðast en alls ekki síst, erum við í þessum félagsskap til að hittast og hafa gaman! Ég valdi mér ekki þessar konur sem vini en allar tóku þær mér opnum örmum, með vináttu og hjálpsemi að leiðarljósi, vildu ekkert annað en að ég væri ég sjálf og fagna fjölbreytileikanum. Allt sem ég þurfti að gera var að opna hugann og byrja að gefa – því allt sem þú gefur færð þú margfalt tilbaka.

Að lokum við ég bara segja við ykkur kæru systur, að ég vona að LC-hreyfingin gefi ykkur jafn mikið og þið gefið henni. Því hreyfingin væri engin ef ekki væri fyrir ykkur og gjöf ykkar til hennar!

LC 10 – Að veranýliði í LC

Að vera nýliði í LC

Ég flutti þvert yfir landið haustið 2014, á stað þar sem ég þekkti engann nema tengdamóður mína. Þessa haustmánuði lærði ég að prjóna, taka slátur og annað nytsamlegt. Eftir nokkurra mánað búsetu á þessum nýja stað fékk ég boð um að koma á fund hjá Ladies Circle. Ég hafði aldrei heyrt um Ladies Circle áður en þáði boðið með miklum þökkum. Á þessum fyrsta fundi sem ég mætti á fór fram danskennsla. Ég hafði ekki dansað edrú síðan í grunnskóla. Ég er einstaklega taktlaus og ósamhæfð að eðlisfari og á þessum tíma var ég auk þess kasólétt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var elegant í dansinum. Ég sá nú fljótt að það skipti engu þó maður stigi ítrekað á tærnar á sjálfri sér og öðrum í kring, þetta snerist bara um að hafa gaman saman og læra eitthvað nýtt.

Að lokinni danskennslu fórum við heim til einnar í klúbbnum þar sem var fundað. Á þennan fund mættu einnig tvær úr landsstjórn. Þetta var allt saman voðalega framandi fyrir nýliðann. Ég var upplýst um að einu sinni í mánuði hittust þessar hressu konur, prófuðu nýja hluti og áttu góða stund saman. Mér þótti þetta allt saman mjögs spennandi enda nýjungagjörn, sbr. sláturgerðina hjá tengdó fyrr um haustið!

Ég áttaði mig ekki strax á því hversu umfangsmikill klúbbur þetta er. Það var kannski ekki fyrr en ég fór á fulltrúaráðsfund á Húsavík í október 2016 að ég náði utan um það hvað þetta er magnaður félagsskapur. Að víðsvegar um heiminn séu konur sem hittast reglulega til þess að njóta vináttu hverrar annarar er ótrúlega fallegt.

Það var óskaplega notalegt fyrir aðkomumanneskjuna að kynnast hópi flottra kvenna. Fljótlega eftir þennan fyrsta fund sem ég mætti á fóru konur að heilsa mér víðsvegar um bæinn. Í dag er þetta svo miklu meira en bara að heilsast á förnum vegi eða fá nikk í búðinni. Í dag eru þessar konur vinkonur mínar og ég nýt samvista við þær í hverjum mánuði. Fyrir það er ég þakklát!

 

-Sigrún, LC10