Rokkurinn apríl 2019 – LC14

Dagur í lífi LC konu í fæðingarorlofi.

Sonur minn vaknaði eldsnemma og ,,ákvað” að mamman skyldi sko halda sig nálægt í dag. Eftir allskyns urr, öskur og óhljóð var ljóst að mörkin væru um hálfur meter. Allt var reynt til að komast aðeins lengra: göngugrindin, hoppustöðin, pottar og pönnur, en NEI allt var ömurlegt nema mamman. Með úfið hárið, ótannburstuð og í spreng hélt ég inná baðherbergi, ferðin gat ekki beðið lengur. Létti ég af mér við skerandi óhljóð litla mannsins sem var duglegur við að láta vita að ég væri komin út fyrir fjarlægðarmörkin. Ég lít til hliðar… klósettpappírinn búinn! ,,Frábært, þetta er alveg í takt við daginn” hugsa ég. Alltaf jafn ánægjulegt þegar þessi staðreynd kemur í ljós í miðri klósettferð. Ég hugsaði til Siggu vinkonu, svona ,,crap” myndi aldrei gerast hjá henni! Enda á hún gjafir fyrir ófædd börn einhverstaðar í fataskápnum og auka lager af öllu sem mig vantar þegar ég kem í helgarheimsóknir og gleymi helmingnum af nauðsynjum heima.

En aftur að litla harðstjóranum. Ég er búin að vera of lengi, að mér skyldi detta til hugar að gera allt þetta þrennt í einu (tannbursta, pissa og greiða mér). Ég gríp handklæði og ,,redda mér”, ekki get ég sleppt því að skeina mér. Frábært. Hjartað er á milljón því ekkert fær hjartað til að slá jafn ótt og títt og grátur ungbarnsins. Dagurinn gekk svona áfram. Litli engillinn var óánægður, eitthvað var að angra hann og líkt og mamman þá ber hann tilfinningarnar utan á sér. Mamman skal sko vita að í dag eigi líf hennar að snúast 150% um hann. Hann er venjulega nokkuð ljúfur og heví sleeper og það að ég skuli nöldra yfir þessum degi er náttúrulega engan veginn réttlátt en anywhoo…

Áfram höldum við, það er komið að mömmuhitting. Ég er með matarklessu á buxunum mínum, jæja svo sem ekkert nýtt. Það eru ófáar búðarferðirnar þar sem ég lít niður og tek eftir matarklessum á fötunum mínum, en það er þegar ég er heppin, því kúkaklessurnar eru síðri. Með slitið hár eftir meðgönguna er ég mætt í mömmó. Ég hafði fyrir því að fara í íþróttaskóna mína í þetta skiptið en oftast er ég í adidas inniskóm eiginmannsins því ég hreinlega nenni ekki í fínni skó. Það krefst þess nefnilega að ég þurfi að leggja litla manninn frá mér og fara í skóna… Anywho…  Ég mæti fyrst af öllum í mömmuhittinginn og svæfi drenginn. Ég borða frábærar veitingar, BARNLAUS, þvílíkur lúxus. Hann vaknar og er ofsalega ánægður eftir svefninn. Við njótum þess að vera í heimsókn, hann fær ritz kex og er alsæll á meðan mamman treður ofan í sig súkkulaðibitunum. Fituhugsanir dagsins á undan eru flognar út um gluggann, enda súkkulaðiskálin svo nálægt að öll sjálfstjórn getur beðið.  Ég hafði líka bara borðað eitt mjólkurkex um morguninn, nú skal bæta upp fyrir það!

Lúrinn hafði verið stuttur og þegar leið á daginn fór allt að færast í fyrra horf. Hlý faðmlöð föðurins duga ekki. Mamma skal það vera en samt er allt ómögulegt. Það líður á kvöldið og ég farin að telja niður mínúturnar. Eldri strákurinn er með besta vin sinn í heimsókn sem auðveldar hlutina töluvert. Þeir eru duglegir að hjálpa með litla snúðinn sem hlær að flestu sem stóri bróðir gerir.

Nú líður að kvöldmat og drengurinn er kominn með nóg. Við komum mat ofaní hann og ég borða um þrjá munnbita af mínum mat. Tíminn líður og klukkan er orðinn 19. Faðirinn sem er búinn að vinna mikið undanfarið lætur mig vita að drengurinn verði sko ekki lagður inn í rúm fyrr en kl 19:30 því hann ætli sér sko ekki of snemma á fætur á morgun, það er hans ,,turn” að vakna með gaurnum á morgun. „Fjandans lífsförunauturinn með skoðun, er það ekki óþolandi?“ Vá ég hugsa hvað ég sé ógeðslega ókurteis að hugsa svona. En ég skil hann vel og jú hann hefur sennilega rétt fyrir sér. Við tórum því til hálf átta og jess barnið er lagt til svefns, LOKSINS. Hann sofnar um leið og hann leggst. Yndislegt. Ég horfi yfir íbúðina, barnadót útum allt, ekki búið að ganga frá eftir kvöldmatinn, flóir út úr þvottakörfunni… „ó fuck it!“ Það á eftir að lesa og koma yndislega eldri drengnum í rúmið sem er svo skemmtilegur og fallegur. Hann eys yfir mig hrósyrðunum allan daginn og syngur hástöfum. Við lesum saman og æfum alltaf stafina og lestur í leiðinni. Eigum smá notalega stund áður en hann fer í rúmið.

Þegar hann er sofnaður tekur við LC-fundur, þar bæti ég upp fyrir kvöldverðinn og borða súkkulaði og bugles í ómældu magni. Eftir samræður kvöldsins átta ég mig á að það er greinilega kominn tími til að stíga fæti inní kynlífstækjabúð. Ég þekkti ekki flest þau orð sem upp komu um kvöldið. Ég ákveð að biðja eiginmanninn um 27 þúsund króna töfratækið í jólagjöf því ekki tími ég að splæsa í það sjálf á fæðingarorlofslaununum. Neee kannski ekki, tengdó yrðu sennilega ekki sérlega hress með að horfa á mig opna pakkann með apparatinu á aðfangadagskvöld! Ég hugsa með mér að þetta bíði fram á sumar enda bankayflirlitið mitt eins og ritgerð þessa dagana í stað yfirlits. Skemmtilegt eða þannig, en fyrir eyðslusama einstaklinga er ákveðinn skellur að fá allt í einu bara 40% útborguð laun, dæmið bara gengur ekki upp til að halda uppi fjölskyldu hvað þá að leyfa sér eitthvað smá… Anywhooo… ég get ekki beðið eftir að eiga peninga í allavega korter eftir mánaðarmót og það styttist í það Nýja húsið verður sko keypt, samt ekki fyrren eftir þrjú ár, við nefninlega erum í feitu sparnaðarátaki! Mýkingarefni og ljósaperur er orðið munaðarvara á þessu heimili. En kræsingarnar, það er erfitt að setja hömlur á þá eyðslu .

Þegar ég kem heim er þar neyðarástand. Komið ykkur í viðbragðsstöðu, sýnið tillitssemi, sendið batakveðjur og ræsið sjúkrabílana.  „Man flu“ er mætt á Eskifjörð og kallinn þarf á stuðningi og samúð ALLRA að halda.  Eins gott að hann liggi ekki í 3 vikur eins og litla dýrið gerði um daginn.

En hvað sem því líður, dagurinn er loksins búinn og ég leggst til svefns. Dásamlegt. Þangað til ég vakna um miðja nótt. Ein tánöglin er brotin og krækist reglulega í sængina. Ég nenni þó ekki að sækja naglaklippur. Ég sofna aftur en sef illa, vakna og fer fram og klippi helvítið af.

Brátt kemur nýr dagur, en bara svona og ekki á neinn annan hátt vil ég hafa lífið, nema kannski hafa drenginn í pínu betra skapi og kallinn frískan.

Comments are closed.