Rokkurinn – LC 13, Upplifun nýrrar konu af LC

Áður en ég byrjaði í Ladies Circle hafði ég heyrt um félagsskapinn frá vinnufélögum. Mér fannst hann spennandi en vissi svo sem ekki hvort hægt væri að sækjast eftir inngöngu eða hvernig þetta færi allt saman fram. Það var svo eitt kvöld að ég fékk hringingu frá konu sem ég ekki þekkti en vissi hver var. Hún spurði hvort ég vildi ekki kíkja á inntökufund LC 13 í Grindavík, þar sem ég hafði verið tilnefnd í félagsskapinn af einni konu sem í honum væri. Mér fannst þetta mikill heiður og frekar spennandi, sá fyrir mér að þarna væri líka leið til að kynnast fleirum í Grindavík þar sem ég er aðflutt og kannski þekkti ekki það marga. Mér líkaði strax mjög vel það sem ég fékk að heyra um félagsskapinn og var strax ákveðin eftir fyrsta fund að taka þátt, kannaðist við nokkrar konur þarna en alls ekki allar. Þegar svo leið að næsta fundi fór ég að spá hvort þetta væri ekki bara vitleysa, ég væri í saumaklúbbi mánaðarlega í bænum og svo væri nú alltaf nóg um að vera allsstaðar, kannski ekki gáfulegt að fara að festa sig í nýjum félagsskap sem gerði ákveðnar kröfur um mætingu. Ég velti þessu fyrir mér en með því að skoða þetta nánar sá ég að kostirnir væru sennilega fleiri og ég hefði bara gott af þessu og svo varð úr. Eftir að ég held fyrstu tvo fundina fann ég að þarna var eitthvað annað í gangi heldur en þessi hefðbundni saumaklúbbur. Þetta var annarskonar næring sem þarna átti sér stað. Hver fundur hefur ákveðið fræðslugildi og víðsýni og skilningur viðstaddra allsráðandi. Við höfum fengið allskonar kynningar á mönnum og málefnum sem manni jafnvel óraði ekki fyrir áður. Við höfum verið duglegar að sækja í nærumhverfi okkar og kemur það því enn meira á óvart hversu margt gott er í gangi svo nálægt manni sem maður veit lítið sem ekkert um. Við erum duglegar að virða þrjár mínúturnar okkar og finnst mér það alveg frábært. Þær auka víðsýni og umburðarlyndi og opna augu manns fyrir ólíkri sýn okkar á sömu hlutina. Lærdómsríkt og fallegt finnst mér og náungakærleikurinn allsráðandi. Af öllum öðrum félagsskap ólöstuðum þá finnst mér Ladies Circle félagsskapurinn nærandi á annan hátt en flest annað, að þarna sé saman kominn hópur kvenna sem ekki eru eintómar vinkonur heldur einmitt konur sem tilbúnar eru til að opna huga sinn og hjarta fyrir ólíkum konum og hlusta á og virða þær eins og þær eru, víðsýnar, umburðalyndar og með kærleikan að leiðarljósi. Hljómar kannski væmið en upplifun mín er þessi og gleðin einhvern veginn allsráðandi hjá þessum ólíka en samt svo líka kvennahópi. Ég hlakka til að starfa áfram með LC 13 og fá að vera þátttakandi í öllu því góða, skemmtilega og nærandi sem þar fer fram.

Helga Fríður Garðarsdóttir, LC13 Grindavík

Comments are closed.