Um LCÍ

Ladies Circle Ísland

Ladies Circle eru alþjóðleg samtök fyrir konur á aldrinum 18-45 ára. Samtökin eru góðgerðarsamtök þar sem vináttan er í forgrunni. Ladies Circle eru lokuð samtök þar sem konur fá oftast boð um aðild í gegnum núverandi LC konu. Einnig geta konur sótt sjálfar um aðgang í samtökin. Í Ladies Circle frá konur tækifæri til að efla sjálfstæði sitt, auka víðsýni og umburðarlyndi og eiga skemmtilegar stundir með öðrum konum.  

Ladies Circle er eins og áður sagði, alþjóðleg samtök og eru meðlimir um 12.500 frá rúmlega 40 löndum og fimm heimsálfum.  

Á íslandi eru 15 klúbbar um allt land. Klúbbarnir eru kallaðir LC (stytting fyrir Ladies Circle) og svo númer, LC1, LC2, LC3 osfrv.  

Ferð Ladies Circle til Rotterdam 2019

Markmið LCÍ

Markmið samtakanna eru: 

  • Að auka áhugasvið félaganna og þekkingu þeirra á lifnaðarháttum annarra og efla sjálfstæði þeirra og umburðarlyndi. 
  • Að efla alþjóðlegan skilning og vináttu. 
  • Að trú og stjórnmál setji ekki mark sitt á klúbbana. 
  • Þessum markmiðum skal m.a. náð með fundum, fyrirlestrum, umræðum og þátttöku í alþjóðlegum fundum.

Markmiðin eru byggð á markmiðum Ladies Circle International. Hvert LC land hefur sín eigin markmið en einkunnarorðin eru í flestum tilefllum þau sömu og eru beint frá einkunnaroðrum Ladies Circle International; Friendship & Service.  

Saga LCÍ

Ladies Circle byrjaði árið 1936 í Bretlandi þar sem eiginkonur Round Table manna tóku sig saman og unnu að góðgerðarstarfi í nær umhverfi sínu. 11 árum seinna, árið 1947 var LC Svíþjóð stofnað og í kjölfarið LC Danmörk, árið 1949. Það liðu síðan 10 ár þar til fjórar konur úr þessum þremur lands samtökum ákváðu að stofna alheimssamtökin Ladies Circle International og mynda fyrstu alheimsstjórnina. Þetta var 29. maí árið 1959 á alheimssráðstefnu Round Table International í Leiden í Hollandi. Í kjölfarið bættust LC löndin hratt við og í dag eru þau rúmlega 40 talsins. Upphaflega var Ladies Circle eingöngu opið fyrir konur Round Table manna en árið 1994 var því breytt og samtökin opnuð fyrir öllum þeim sem hafa áhuga.