Ladies circle á Íslandi

Ladies Circle eru alþjóðleg góðgerðar- og vináttusamtök fyrir konur á aldrinum 18-45 ára. Einkunnarorð alheimssamtakanna eru „Friendship & Service“ eða vinátta og hjálpsemi. Í Ladies Circle fá konur tækifæri til að efla sjálfstæði sitt, auka víðsýni og umburðarlyndi og eiga skemmtilegar stundir með öðrum konum.

Markmið samtakanna eru m.a. að:

• Efla konur í framkomu og styrkja sjálfsmynd þeirra.

• Auka áhugasvið og þekkingu á lifnaðarháttum annarra.

• Efla sjálfstæði og umburðarlyndi.

• Efla alþjóðlegan skilning og vináttu.

 

Markmiðin eru byggð á markmiðum Ladies Circle International. Öll aðildarsamtök innan Ladies Circle International vinna eftir einkunarorðun samtakanna; Friendship & Service.  Hvert land hefur svo sín eigin markmið og gildi.  

Merki Ladies Circle Ísland er gylltur rokkur með hjörtum og eldfjalli. 

Merkið táknar hjól rokksins, sem er tákn kvenna frá gamalli tíð og er hjólinu skipt upp í 6 hjörtu sem tákna:

Vináttu – Umburðarlyndi – Tillitsemi – Heiðarleika – Jákvæðni – Náungakærleika

Þessi sex orð eru mikilvægi í starfi Ladies Circle og félagskonur hvattar til að tileinka sér þau í lífinu. 

 

Saga Ladies Circle

Ladies Circle var stofnað í Englandi árið 1936. Fyrsti LC klúbburinn var í Bournemouth og var hann stofnaður af eiginkonum Round Table manna. Konurnar höfðu þá í einhvern tíma unnið að góðgerðarstarfi í nær umhverfi sínu og vildu gera eitthvað meira og í sama stíl og Round Table. Árið 1947 var LC Svíþjóð stofnað og í kjölfarið LC Danmörk, árið 1949. Það liðu síðan 10 ár þar til fjórar konur úr þessum þremur lands samtökum ákváðu að stofna alheimssamtökin Ladies Circle International og mynda fyrstu alheimsstjórnina. Þetta var 29. maí árið 1959 á alheimssráðstefnu Round Table International í Leiden í Hollandi. Í kjölfarið bættust LC löndin hratt við og í dag eru þau rúmlega 40 talsins og félagskonur um 13.000. Upphaflega var Ladies Circle eingöngu opið fyrir konur Round Table manna en árið 1994 var því breytt og samtökin opnuð fyrir öllum þeim sem hafa áhuga.  

Ladies Circle Ísland (LC 1) var stofnað 28. apríl 1988 á Akureyri. Í framhaldinu voru stofnaðir tveir klúbbar í Reykjavík, LC 2 árið 1990 og LC 3 1994 og þá var fyrsta landsstjórn LCÍ mynduð 8. júní 1994. Á fyrstu 10 starfsárum LC Ísland voru stofnaðir 10 klúbbar víðsvegar um landið. 

 

Uppbygging Ladies Circle

Alheimsstjórn er æðsta stjórn samtakanna og er samsett af 5 konum sem kosnar eru á aðalfundi LC International. Allar félagskonur LC geta gefið kost á sér í þessi embætti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Landsstjórn LCÍ er samsett af 5 konum sem kosnar eru á landsfundi LCÍ ár hvert. Allar konur innan LCÍ geta gefið kost á sér í þessi embætti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Embættin innan landsstjórnar LCÍ eru: landsforseti, varalandsforseti, fráfarandi landsforseti, vefstýra og gjaldkeri. 

Stjórnir klúbba. Félagskonur kjósa stjórn síns klúbbs á aðalfundi klúbbsins hvert ár. Í flestum tilfellum mynda 5 konur stjórn klúbbs hverju sinni. Formaður, varaformaður, fráfarandi formaður, ritari og gjaldkeri. 

Aðild að LC

Ladies Circle er fyrir konur á aldrinum 18-45 ára. Aðild að klúbbi geta þær konur öðlast sem bornar eru upp af núverandi eða fyrrverandi félaga samtakanna. Einnig getur kona sent inn ósk um inngöngu í klúbb og er þá borin upp á fundi. Samtökin eru opin öllum konum sem hafa áhuga á að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast öðrum konum. 

Klúbbastarf

Fundir eru haldnir einu sinni í mánuð frá september til júní og hafa klúbbarnir sinn fasta fundardag t.d. fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Félagskona greiðir fast mánaðargjald allt árið sem dekkar fundarkostnað og árgjald félagskonunnar til LCÍ og LC International. Mánaðargjaldið er mismunandi eftir klúbbum en algengast er að það sé á bilinu 3000 – 5000 kr. 

Formaður klúbbs setur upp dagskrá starfársins ásamt þema og einkunnarorðum og eru fundarefnin oft í takt við einkunnarorð formanns. Klúbbkonur skipta mér sér að skipuleggja og halda fundi, oftast 2-3 saman. 

Á fundum er farið yfir ýmislegt tengt starfinu og upplýsingar frá stjórn klúbbs. Þær klúbbkonur sem skipulögðu fundinn sjá svo um að sinn hluta. Fundarefnið er yfirleitt í takt við þema vetrarins eða yfirskrift fundarins og getur verið ýmislegt t.d. fyrirlestur, fyrirtækjaheimsókn, námskeið eða annað skemmtilegt og fræðandi sem skipuleggjendum dettur í hug hverju sinni.

Á öllum fundum eru einnig svokallaðar 3 mínútur. Þrjár mínútur eru fastur liður í klúbbastarfi Ladies Circle. Tilgangur þeirra er m.a. að þjálfa félagskonur LC í að standa fyrir framan hóp og tjá sig um fyrirfram ákveðin málefni. Styrkja þær og efla öryggi í framkomu, efla jákvætt viðhorf, virðingu og umburðarlyndi. Málefnið tengist yfirleitt þema fundarins hverju sinni. Ekki er skylda að taka þátt í þrem mínútum en konur eru eindregið hvattar til að taka þátt og æfa sig svo að tilgangi þriggja mínútna sé náð.  

Social media & sharing icons powered by UltimatelySocial
Facebook
YouTube
Instagram